Horft framhjá Mjóafirði þegar teknar eru ákvarðanir í samgöngumálum

Formaður bæjarráðs segir að ræða þurfi aðgerðir til að tryggja bættar samgöngur við Mjóafjörð sem gjarnan verði útundan þegar ákvarðanir séu teknar af ríkinu. Alvarlegt ástand skapaðist þar um síðustu helgi þegar skriða féll í gegnum þorpið.

„Það þarf að rjúfa einangrun Mjóafjarðar til að efla samfélagið þar og tryggja öryggi á staðnum eins og sýndi sig um daginn,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Í leysingum fyrir rúmri fór krapaflóð í Borgeyrará þar milli húsa. Flóðið bar með sér eðju og grjót sem fyllti upp í farveginn. Áhyggjur voru af ástandinu þar sem spáð var áframhaldandi leysingum og erfitt að koma vinnuvélum á svæðið til að hreinsa farveginn.

Ríkið niðurgreiðir rekstur báts sem siglir milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar samkvæmt áætlun tvisvar í viku frá 1. október til 31. maí.

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá í síðustu viku er áréttað að íbúar í Mjóafirði búi við skert lífskjör vegna lélegra samgangna. Þótt íbúarnir séu fáir verði að rjúfa einangrunina þannig Mjófirðingar geti búið við sama grundvallaröryggi og aðrir íbúar landsins.

„Það er gjarnan horft framhjá Mjóafirði þegar ákvarðanir um vegasamgöngur á landi eru teknar af ríkinu. Við höfum verið að þrýsta á úrbætur því samfélagið eflist ekki meðan ástandið er svona

„Það verður að stórefla samgöngur á landi til Mjóafjarðar. Við viljum taka samtalið með hvaða hætti vegasamgöngur verði bættar,“ segir Eydís.

Á sama bæjarráðsfundi var staðfest tilboð Fjarskiptasjóðs um ljósleiðaravæðingu í Fjarðabyggð. Samkvæmt því koma níu milljónir til að leggja ljósleiðara milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar og fjórar milljónir til framkvæmda í Breiðdal.

„Bætt símasamband og nettenging er hluti af bættum samgöngum og við höfum verið að herja á úrbætur þar í samstarfi við Neyðarlínuna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar