Hótel Breiðdalsvík verðlaunað fyrir sjálfbærnistefnu sína
Hótel Breiðdalsvík fékk í gær hvatningarverðlaun verkefnisins Ábyrgar ferðaþjónustu fyrir metnaðarfulla sjálfbærnistefnu sem byggir á hringrásarhagkerfinu og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.Það var Friðrik Árnason, eigandi hótelsins, sem tók við verðlaununum sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti. Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar standa að verðlaununum.
Í umsögn dómnefndar segir að Hótel Breiðdalsvík hafi tekið á skipulagðan og markvissan hátt á stóru og mikilvægu verkefni undanfarið ár. Sjálfbærnistefna þess sé afar vel ígrunduð, markvisst unnið með Heimsmarkmiðin og hringrásarhagkerfið haft að leiðarljósi. „Hér birtist hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu á mannamáli sem er allt í senn auðlesin, fróðleg og innihaldsrík.“
Við gerð stefnunnar hafi verið horft til gilda hótelsins: „metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið.“ Dómnefndin telur þau endurspeglast vel á hvernig stefnunni sé framfylgt í daglegum rekstri. Þá sé lögð áhersla á að hótelið sé einangrað heldur virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélaginu á Breiðdalsvík.
Í sjálfbærnistefnunni, sem lesa má á vef hótelsins, er komið inn á þætti á borð við þjálfun nýs starfsfólks, öryggismál, hvernig sorpflokkun dregur úr sóun og skilar sér í hagkvæmari rekstri, að hugað sé að skynsömum innkaupum og nefndar aðgerðir til að draga úr orku- og vatnsnotkun.
Af fimmtán tilnefningum sem bárust til verðlaunanna voru þrjú fyrirtæki valin til að kynna sérstaklega vinnu sína á sérstökum degi verkefnisins í gær. Auk Hótels Breiðdalsvíkur voru það Pink Iceland og Midgard Adventure.