Héraðsskjalasafnið auglýsir eftir forstöðumanni: Ekki tilbúnið að sameina störfin í Safnahúsinu
Starf forstöðumanns Héraðsskjalasafns Austfirðinga var í morgun auglýst laust til umsóknar. Stjórn safnsins telur rétt að finna sem fyrst nýjan forstöðumann til að tryggja samfellu í starfinu frekar en ráðast í hagræðingu í rekstrarstjórn í safnahúsinu.
Í tilkynningu frá stjórn Héraðsskjalasafnsins segir að um sé að ræða fullt starf. Auglýst er eftir einstaklingi sem hafi háskólapróf í námsgrein sem nýtist starfseminni og hafi reynslu af samstarfi og fjármálastjórn. Miðað er við að nýr forstöðumaður hefji störf í byrjun febrúar.
Stjórnin ákvað að fara þessa leið á fundi sínum í gærkvöldi frekar en skoða breytingar á rekstrarstjórn. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sendi stjórninni bréf með spurningu um hvort, þar sem núverandi forstöðumaður skjalasafnsins hefði sagt starfi sínu lausu, væri ástæða til að skoða „hvort breytingar á rekstrarstjórn gætu mögulega leitt til hagræðingar og jafnvel eflingar á starfseminni.“
Lagt er að skoðað verði hvort færa megi reksturs safnanna undir sameiginlegan forstöðumann. Í Safnahúsinu eru nú til húsa Bókasafn Héraðsbúa, Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafnið.
Stjórn Héraðsskjalasafnsins telur ekki hægt að meta mögulegt hagræði af breyttri rekstrarstjórn fyrr en að undangenginni athugun á núverandi starfsemi. Til þess þurfi fyrst staðfestingu á vilja allra aðildarfélaga Héraðsskjalasafnsins en safnið er sjálfstæð skjalavörslustofnun í eigu sveitarfélaganna í Múlasýslum.
„Minnt er á að safnið hefur lögbundnum skyldum að gegna við fleiri sveitarfélög en Fljótsdalshérað. Það er forgangsmál stjórnar Héraðsskjalasafnsins að gæta hagsmuna þess í samræmi við stofnsamning. Því telur stjórn að ekki verði lengur beðið með að auglýsa eftir nýjum forstöðumanni safnsins enda mikilvægt að ekki verði rof í starfseminni sem yrði til þess að reynsla og þekking glataðist.“