Hreindýraveiðum lokið: Þrettán dýr óveidd

hreindyr_web.jpg
Þrettán dýr vantaði upp á að allur hreindýraveiðikvóti ársins væri veiddur. Ekki tókst að endurúthluta öllum leyfum sem skilað var á tímabilinu. Nýjar kröfur um skotpróf virtust þvælast fyrir veiðimönnum.

Veiðitímabilinu lauk á fimmtudag. Alls veiddust 996, 582 kýr og 414 tarfar en heimilt var að veiða 1009 dýr. Upp á að allur kvótinn næðist vantaði sjö tarfa og sex kýr.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar segir að mörgum úthlutuðum leyfum hafi verið skilað fyrir tímabilið. Kröfur voru gerðar um að allir veiðimenn hefðu tekið skotpróf en það gerðu ekki allir.

„Þetta olli því að mörgum leyfum þurfti að úthluta aftur og ekki tókst að endurúthluta öllum leyfunum þó haft væri samband við fjölmarga umsækjendur á biðlistum.“

Veiðin mun hafa gengið vel en „þó þurfti að grípa til þess í meira mæli en áður að opna skörun milli samliggjandi veiðisvæða þar sem dreifing dýranna var að nokkru leyti óhefðbundin.

Áberandi er hve margir veiðimenn koma til veiða um helgar þannig að þá eru margir veiðihópar á ferðinni á fáum dögum en aðrir dagar eru illa nýttir. Fyrri hluta tímabilsins var veður gott en veðrið var ekki eins hagstætt á seinni hluta veiðitímans og tafði það veiðar eitthvað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.