Hreindýraveiðar ganga hægt en dýrin eru væn

Búið er að fella tæplega 100 hreindýr af þeim 1300 sem heimilt er að veiða í ár. Dýrin virðast væn eftir góða tíð í vor.


„Þetta hefur gengið frekar rólega. Það hefur komið dálítið af þokudögum sem hafa strítt mönnum. Síðan eru veiðimenn seinir af stað eins og alltaf,“ segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Veiðar á törfum hófust þann 15. júlí en kúaveiðar á mánudag. Jóhann segir að eftir fyrstu tvær vikurnar hafi verið búið að veiða 20 törfum minna en á sama tíma í fyrra. Hlutfallið kann hins vegar að vera svipað því heildarkvótinn er minni.

Í ár er alls heimilt að veiða 1300 dýr, þar af 135 kýr í nóvember á svæðunum í kringum Hornafjörð. Búið er að úthluta nær öllum leyfum nema fáeinum í nóvember. Biðlistar eftir törfum hreyfast lítið en þeir sem sóttu um veiðileyfi á kúm til vara hafa margir haft heppnina með sér.

Helst er von á að tarfalistarnir hreyfist ef veiðimenn koma austur í fýluferðir. Veiðarnar velta mikið á veðri og að undanförnu hafa verið norðanáttir sem stundum bera með sér þoku.

Flest dýrin hafa verið veidd á svæðum 6 og 7 sem ná yfir Breiðdal og Djúpavogshrepp. „Það er kominn gróður upp um allt og dýrin halda sig víða hátt og langt frá byggð. Tíðin í vor var hagstæð og menn tala um að dýrin sem hafi veiðst séu væn. Miðað við þyngdartölur sýnist mér dýrin vera í fyrra fallinu með fitusöfnun.“

Heimilt er að veiða tarfa til 15. september og beljur til 20. sama mánaðar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.