Hrókeringar á Djúpavogi
Stofnfundur Skákdeildar ungmennafélagsins Neista í Djúpavogi var haldinn í gærkvöldi. Hugmyndin að deildinni fæddist eftir að tekin var upp skákkennsla í Djúpavogsskóla.
Helga Björk Arnardóttir umsjónarkennari í Djúpavogsskóla og formaður Neista segir að tekið hafi verið upp á því að breyta einum stærðfræðitíma í viku í skáktíma í öðrum og þriðja bekk.. „Þetta höfum við gert í svolítinn tíma og hefur gefist rosalega vel. Krakkarnir eru svo áhugasöm og svo er líka gaman að geta tengt þetta inn í stærðfræðina. Þetta er eiginlega orðinn einn vinsælasti tíminn hjá okkur.
Svo kom hann Natan Leó Arnarsson sem er stuðningsfulltrúi í grunnskólanum og mikill skákáhugamaður til mín og stakk upp á því hvort það væri ekki hægt að stofna skákdeild innan Neista og við tókum þessari hugmynd fagnandi. Það varð síðan að veruleika í gær þegar stofnfundurinn og fyrsta æfingin fór fram. Okkur langar og ætlum að reyna að rífa upp skákmenninguna hérna,“ segir Helga Björk.
Hún segir að hugsunin á bakvið skákdeildina hafi verið að auka fjölbreytnina í íþróttalífinu á Djúpavogi. „Það eru auðvitað ekkert allir sem finna sig í hinum hefðbundnu íþróttum og þetta gefur þeim einstaklingum tækifæri á að finna sér jafnvel einhvern farveg innan ungmennafélagsins,“ bætir Helga Björk við.
Natan Leó mun sjá um skákæfingarnar. Á stofnfundinn mættu 6 manns á öllum aldri til að tefla saman. „Við erum ánægð með viðbrögðin og mætinguna í gær en við vitum af fleira fólki sem ætlar að koma á næstu æfingu. Það er alveg klárt mál. Svo hittumst við einu sinni í viku, alla veganna til að byrja með, við þurfum líka að sjá hvort við skiptum þessu upp eftir aldri,“ segir hún.
Helga Björk segir að hugmyndir eru uppi um að fara með þetta ennþá lengra og hafa sambandi við aðra grunnskólaskóla hérna fyrir austan og jafnvel koma á fót einhverskonar skákkeppni milli skóla.