HSA málinu lokið í bili: Friður fyrir frekari niðurskurði
Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð líta svo á að deilum við yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands vegna skýrslu um framtíð stofnunarinnar sé lokið. Þeir telja sig hafa fengið vilyrði fyrir því að ekki sé unnið eftir hugmyndum í skýrslunni og niðurskurðartímabili í austfirskri heilbrigðisþjónustu sé lokið.
„Ég gat ekki betur skilið en svo að á fundinum með fulltrúum velferðarráðuneytisins væri okkur sagt að „pakkanum væri lokað,“ að við fengjum frið fyrir frekari niðurskurði á næstu árum,“ sagði Elvar Jónsson, Fjarðalistanum, á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.
„Það er þá friður meðan þessi ráðherra er í embætti en hringekjan hefst aftur þegar nýr ráðherra tekur við. Það hafa verið átök um ýmsa heilbrigðisþjónustu á Austfjörðum í tíð ráðherra úr öllum flokkum,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknarflokksins. „Það sem lokar á Austurland fer frá Austurlandi. Lokun í Neskaupstað þýðir uppbyggingu á Akureyri eða í Reykjavík, ekki Egilsstöðum.“
Trúnaðarbresturinn líka bæjarráðs
Það var vikublaðið Austurglugginn sem birti útdrátt úr skýrslunni sem unnin var að beiðni yfirstjórnar HSA til að setja fram hugmyndir til að taka á rekstrarvanda stofnunarinnar. Þar birtust meðal annars hugmyndir um lokanir á heilsugæslustöðvum í Fjarðabyggð og samdrátt á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.
Í kjölfarið samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar bókun þar sem hluti yfirstjórnar HSA var sakaður um trúnaðarbrest með því að hafa ekki látið vita af tilurð skýrslunnar. Forstjórinn, Einar Rafn Haraldsson, svaraði þeim ávirðingum fyrir hönd stjórnarinnar fullum hálsi.
Guðmundur Þorgrímsson, Framsóknarflokki, taldi bæjarráðið hafa verið heldur fljótt til með slíka bókun. „Það varð viss trúnaðarbrestur þegar bæjarráðið sendi frá sér bókun, byggða á skrifum í Austurglugganum án þess að ræða við HSA fyrst.“
Engar úttektir um betra ástand án HSA
„Nú er komið lok á þetta mál. Við höldum áfram að vinna með HSA,“ sagði Jón Björn. Fundað hefur verið bæði með forstjóranum og velferðarráðuneytinu og fengin skýr svör um að skýrslan hafi aðeins verið vinnuplagg. Ekki sé unnið eftir þeim hugmyndum sem þar komi fram. Þá er hafinn undirbúningur að því að halda ráðstefnu um stefnu og framtíð í austfirskum heilbrigðismálum.
Guðmundur varaði við hugmyndum um að heilbrigðisstofnunin verði hlutuð í sundur og heilbrigðismálin færð í hendur hvers sveitarfélags fyrir sig.
„Það er ekki langt síðan sveitarfélögin stóðu í slag hvert við annað um að ná til sín peningunum fyrir heilbrigðismálin. Þegar menn fara að togast á um peninginn verður sá sterkasti ofaná og það er ekki til að efla byggðaþróun í landinu.
HSA er apparat sem Austfirðingar eiga allir. Ég eigum að taka hreinskiptar umræður um HSA og vinna þessi mál í sameiningu. Ég hef ekki séð neina úttekt um að heilbrigðismálunum sé betur komið hjá okkur heldur en HSA. Þar til slíkar niðurstöður liggja fyrir eigum við ekki að ala á að það sé betra fyrirkomulag.“