Höskuldur með sterka stöðu í oddvitaslagnum í Eyjafirði

hoskuldur_thorhallsson.jpg
Áhugahópur um oddvita Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi lét Gallup skoða hvern íbúar Akureyrar og nágrennis vilja sem oddvita flokksins fyrir komandi alþingiskosningar, Höskuld Þórhallsson þingmann eða Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann framsóknarflokksins. Könnunin sýndi sterka stöðu Höskuldar þar.

Könnunin var gerð dagana 15. – 24. október og fékk áhugahópurinn niðurstöðurnar frá Gallup seint í vikunni. Vikudagur, Austurglugginn og Austurfrétt hafa könnunina undir höndum. 

Úrtakið var 1080 manns á Akureyri og nágrenni. 699 svöruðu, en 381 tóku ekki afstöðu og svarhlutfallið því 64,7%.

380 sögðust vilja að Höskuldur Þórhallsson fari fyrir framboðslistanum, eða 67,8%. 114 nefndu hvorugan, eða 20,4% og 66 sögðust vilja Sigmund Davíð Gunnlaugsson, eða 11,8%

Þessar niðurstöður þýða að fylgið við Höskuld á svæðinu er 85,2% en fylgi Sigmundar Davíðs er 14,8%. 87,4% svarenda búa á Akureyri, 11,7% í dreifbýli Akureyrar og 0,9% í Hrísey/Grímsey.

Kjördæmisþing um helgina 
 
Stuðningsmenn Höskuldar túlka þessar niðurstöður sem mikinn sigur og benda á að á Akureyri séu flestir kjósendur kjördæmisins. Stuðningsmenn Sigmundar Davíðs eru allt annað en kátir og segja óeðlilegt að kanna fylgið á afmörkuðu svæði í kjördæminu. Þeir tala jafnvel um skemmdarverk.

Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi verður haldið í Mývatnssveit um helgina. Þar verður væntanlega lögð fram tillaga um framkvæmd vals á framboðslista flokksins í kjördæminu.

Samkvæmt þeim sem Austurfrétt hefur rætt við eru mestar líkur taldar á að sú leið verði farin að halda tvöfalt kjördæmisþing en á því eiga bæði aðal- og varafulltrúar á kjördæmisþingi atkvæðarétt. Stuðningsmenn Höskuldar hafa barist fyrir póstkosningu, líkt og fyrir fjórum árum.Það var ekki samþykkt þá. 
 
Höskuldur veikur utan Akureyri 
 
Könnunin virðist endurspegla stöðu Höskuldar á Akureyri. Samkvæmt heimildum Austurfréttar er fylgi hans annars staðar takmarkað, til dæmis á Austurlandi þrátt fyrir hans eigin yfirlýsingar um að hann finni fyrir miklum stuðningi. Þá virðist hann jafnvel vinsælli utan flokks en innan.

Höskuldur Þór og Sigmundur Davíð vilja sem fyrr segir báðir fara fyrir listanum. Anna Kolbrún Árnadóttir vill 2. sætið og Huld Aðalbjarnardóttir setur stefnuna á 2.-3 sæti listans.

Sigfús Karlsson sækist eftir 2.-4. sæti og Hjálmar Bogi Hafliðason óskar eftir stuðningi í 4.-5. sæti. Í dag lýsti Þórunn Egilsdóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps, yfir áhuga á fjórða sætinu.

Framsóknarflokkurinn í Norðausturkjördæmi er nú með tvo þingmenn. Birkir Jón Jónsson fyrsti þingmaður sækist ekki eftir endurkjöri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar