Hæstiréttur staðfesti 1,6 milljarða bætur fyrir vatnsréttindi
Hæstiréttur staðfesti á fimmtudag úrskurð héraðsdóms og þar áður matsnefndar um 1,6 milljarða heildarbætur til landeigenda á vatnasvæði Kárahnjúkavirkjunar fyrir fallréttindi. Rétturinn telur að matsnefndin hafi rétt réttar forsendur til niðurstöðu sinni.
Landeigendur framseldu vatnsréttindi sín í desember 2005 og átti réttarstaða þeirra að vera jafngild því að löndin hefðu verið tekin eignanámi. Matsnefnd, sem skipuð var til að meta verðmætið, skilaði niðurstöðum síðsumars 2007. Niðurstaða hennar hefur bæði verið staðfest í héraðsdómi og nú Hæstarétti.
Ýmsar skoðanir voru uppi um út frá hverju meta ættu fallréttindin. Hæstiréttur taldi rétt að horfa meðal annars til stærðarhagkvæmni virkjanakosta, dreifkerfis og markaðar fyrir þá orku sem framleidd væri. Rétturinn taldi að matsnefndin hefði „í öllum aðalatriðum lagt réttan grundvöll að niðurstöðu sinni um fullar bætur til vatnsréttindahafa.“
„Ekki var talið unnt að líta til sérálits í úrskurði matsnefndarinnar og heldur ekki matsgerðar dómkvaddra manna, sem byggði á svonefndri samningaleikjafræði, með vísan til þess að þær ættu sér ekki stoð í viðurkenndum matssjónarmiðum að íslenskum rétti. Þá þótti ekki verða byggt á annarri matsgerð dómkvaddra matsmanna, þar sem hún byggði á atriðum sem ýmist gerðust eftir viðmiðunartímamark við ákvörðun eignarnámsbóta eða höfðu ekki orðið.“
Áfrýjendur töldu meðal annars að héraðsdómur hefði ekki metið gögn sem lögð voru fram í málinu á sjálfstæðan hátt heldur reitt sig á lýsingum málsaðila og dómurinn ekki hvílt á réttum lagalegum forsendum. Þá er einnig vísað í tæknileg málefni eins og gagnaöflun og tíma málflutningsaðila fyrir héraðsdómi. Hæstiréttur taldi héraðsdóm almennt hafa unnið sína vinnu og þeir annmarkar sem hefðu verið á væru það smávægilegir að þeir yrðu ekki til ógildingar dómsins.
Ísland er eyland á raforkumarkaði
Landsvirkjun vísaði til þess að ekki væri frjáls verðmyndun á vatnsréttindum fyrir hendi og rétthafar engan arð haft af réttindunum þar til þau voru framseld fyrirtækinu. Því þurfi að líta til þess í verðmati hversu arðbær væntanleg nýting réttindanna teljist. Því sé eðlilegt að leggja til grundvallar hlutfall milli stofnkostnaðar og verðmætis fallréttindanna. Þessu höfnuðu vatnsréttindahafarnir og töldu rétt að verðmætið væri ákvarðað sem hlutfall af brúttósöluverði raforku.
Í upphafi málsins hélt Landsvirkjunar því fram að verðmæti vatnsréttindanna væru 150-300 milljónir. Síðar var viðurkennt að í kostnaðaráætlun hefði „af varúðarráðstæðum“ verið reiknað með 700 milljóna krónum í bætur. Aðalkrafa landeigenda hljóðaði hins vegar upp á 93 milljarða króna bætur.
Landeigendur rökstuddu kröfur sínar meðal annars með nýjum raforkulögum frá 2003 sem heimilað hefðu sölu framleiðenda á almennan markað og nefndu þeir meðal annars dæmi frá Noregi þar sem markaðurinn breyttist eftir slíka lagabreytingu. Hæstiréttur benti á að Ísland væri eyland í raforkusölu og ótengt öðrum. Hugmyndir um sæstreng og orkusölu um hann væru enn fjarlægar og því erfitt að meta verðmætin út frá þeim. Möguleikar til sölu takmarkist af kostnaði við flutning raforku og orkutöpun henni samfara.
Íslenskur raforkumarkaður skiptist í smásölumarkað og stóriðjumarkað. Stóriðjan sé háð því að vera nálægt orkulindum vegna flutningskostnaðinum. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar ráðist hafi verið í Kárahnjúkavirkjun hafi efnahagsleg umsvif á svæðinu í nánd verið „lítil og eftirspurn á raforku í samræmi við það.“
Ekki aðrir kostir en Landsvirkjun og Alcoa
Orkusamningurinn við Alcoa er til 40 ára en endingartími virkjunarinnar 63 ár. Erfitt verði að finna annan kaupanda njóti Alcoa ekki við, smásölumarkaðurinn geti aldrei nýtt það rafmagn sem Kárahnjúkavirkjun framleiði. Dómurinn telur því að landeigendur hafi ekki sýnt fram á að eftirspurn eftir vatnsréttindum þeirra hafi verið fyrir hendi til framleiðslu raforku sem seld yrði hærra verði hærra verði en stóriðja greiðir almennt. Þá ekki sýnt að annað fyrirtæki en Landsvirkjun hafi haft fjárhagslega eða tæknilega getur til að ráðast í framkvæmdirnar og slíkur aðili sé ekki sjáanlegur „í nálægri framtíð.“
Hæfilegar bætur þykja því 1,4% af áætluðum stofnkostnaði Kárahnjúkavirkjunar eða 1.560 milljarðar króna. Um 75% fara til landeigenda við Jökulsá á Dal, 1,2 milljarðar, um 300 milljónir til landeiganda við Jökulsá í Fljótsdal og 110 milljónir til rétthafa Kelduár í Fljótsdal.