Skip to main content

Hætt við lokun á FSN í sumar: Dregið úr þjónustuframboði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2012 13:22Uppfært 08. jan 2016 19:22

hsalogo.gifÞrjátíu milljóna króna viðbótarframlag úr ríkissjóði bjargar því að loka þurfi sjúkrasviði Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað í sumar. Það dugir samt ekki til að koma í veg fyrir niðurskurð í þjónustu.

 

Frá þessu er greint í Austurglugganum í dag. Viðbótarframlagið þýðir að hægt er að ljúka við gerð rekstaráætlunar sem kynnt verður starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Austurlands á næstu dögum.

Þrátt fyrir framlagið þarf HSA að skera niður og hagræða. Í bréfi sem Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri, sendi starfsmönnum á dögunum, segir að dregið verði úr þjónustu á Fjórðungssjúkrahúsinu í sumar.

„Legurýmum sjúkrasviðs verður fækkað um nær helming, úr 23 í 12. Jafnframt verður dregið mjög úr sumarafleysingum og gerðar verulegar breytingar á útkalls- og yfirvinnuheimildum starfsmanna. Opnunartímar heilsugæslustöðva HSA verða samræmdir og framboð stofutíma tengt íbúafjölda. Skipulagsbreytingar verða í sjúkraflutningum, vaktir lækna sameinaðar, dregið enn frekar úr stjórnunarkostnaði og svo mætti lengi telja.“