Hætt við sameiningu þjóðgarða
Ríkisvaldið virðist vera fallið frá hugmyndum um sameiningu þjóðgarðsstofnana í eina sem mættu andstöðu heimamanna á Austursvæði. Til stendur þó að endurskoða stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðar.
Þetta kemur fram í nýlegri fundargerð stjórnar þjóðgarðsins en þar segir að „sameining allra náttúruverndarstofnana virðist út af borðinu í bili.“
Austurfrétt greindi fyrr á árinu frá hugmyndum um að Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og sá hluti Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með friðlýstum svæðum yrðu sameinaðir í sérstaka stofnun sem heyri undir umhverfisráðuneytið.
Heimamenn á Austursvæði mótmæltu sérstaklega þessum hugmyndum og sögðu þær settar fram einhliða af hálfu umhverfisráðuneytisins. Með því væri rofin fyrirheit og sátt um aðkomu heimamann að stjórnun þjóðgarðsins. Frá þessum hugmyndum virðist nú hafa verið fallið.
Eftir stendur að skoða lög um stjórnskipulag þjóðgarðsins en gert er ráð fyrir að sú vinna standi fram á næsta ár. Í fundargerð kemur fram að til standi að ræða staðsetningu starfsstöðvar framkvæmdastjóra þjóðgarðsins í tengslum við hana en stöðin er nú í Reykjavík.