Hugmynd að viskíframleiðslu hlutskörpust á Austurlandi

anh_fjardabyggd1_web.jpg

Hugmynd að viskíframleiðslu og byggingu verksmiðju til hennar á Austurlandi þótti besta viðskiptahugmyndin á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni sem fram fór helgina 11. – 13. maí í Fjarðabyggð. Hugmyndin er hugarfóstur Gillian ‘Dillý’ Haworth. Stofnun fiskisafns á Breiðdalsvík þótti næst besta hugmyndin.

 

Í rökstuðningi til dómnefndar er m.a. bent á að á Austurlandi er þegar stunduð lífræn byggframleiðsla undir merkjum Móður Jarðar en bygg er undirstaða í viskíframleiðslu. Nýta mætti hratið sem fellur til við framleiðsluna í dýrafóður og hita frá verksmiðjunni til upphitunar húsa og sundlauga. Þessi framleiðsla á viskí teldist því vera vistvænn og atvinnuskapandi iðnaður sem styður við aðrar atvinnugreinar á svæðinu.  

Gillian „Dillý” Haworth segist telja að viskíframleiðsla sé mjög hentug á Austurlandi og að „ástæða sé til að ætla að hið íslenska viskí geti orðið af sömu gæðum og bestu viskítegundir heims.” Þá telur Dillý að viskýverksmiðja geti laðað að ferðamenn og glætt þannig ferðaþjónustu Austurlands lífi. 

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi í Fjarðabyggð fór fram í samstarfi við Fjarðabyggð og Þróunarfélag Austurlands en auk þess studdu fjölmörg fyrirtæki á Austurlandi rausnarlega við viðburðinn. 

Innovit og Landsbankinn hafa í vetur staðið fyrir Atvinnu- og nýsköpunarhelgum í samstarfi við sveitarfélög og fleiri. Markmiðið er að virkja fólk til athafna og skapa vettvang fyrir þá sem langar að koma viðskiptahugmynd í framkvæmd og njóta leiðsagnar sérfróðra aðila á því sviði. Áður hafa Atvinnu – og nýsköpunarhelgar farið fram á Suðurnesjum, Hornafirði, Reykjavík, Akureyri og Akranesi. 

Um er að ræða síðasta viðburðinn í vetur og hafa þessar helgar heppnast vonum framar, þátttakendur skipta hundruðum og hugmyndirnar einnig. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.