Hugsanlega þarf áhættumat vegna vatnsbóls Seyðfirðinga við gerð Fjarðarheiðarganga

Hugsanlega þarf að setja ströng skilyrði við leyfisveitingar vegna framkvæmda við Fjarðarheiðargöng Seyðisfjarðarmegin til að tryggja að verkið spilli ekki eina vatnsbóli bæjarbúa.

Þetta er mat fræðinga Skipulagsstofnunar sem farið hafa í þaula ofan í umhverfismat það sem Vegagerðin gerði og birti vegna fyrirhugaðrar gangnagerðar snemma á síðasta ári.

Í því umhverfismati kemur meðal annars fram að nokkur hætta steðji að vatnsbóli Seyðfirðinga enda sé það staðsett skammt frá fyrirhuguðum gangnamunna þeim megin Fjarðarheiðar. Þar helst um að ræða olíumengun enda þurfi mikla olíu á þau tæki og tól sem nota þarf til verksins en verkefnið mun jafnframt standa yfir í langan tíma.

Vegagerðin hyggst setja sérstök skilyrði til að lágmarka hættuna en Skipulagsstofun telur vænlegt að færa sjálft inntakslón vatnsveitu Seyðfirðinga upp fyrir gangamunnan til að lágmarka hættuna á mengunarslysi sem myndi hafa miklar afleiðingar í för með sér. Stofnunin telur jafnframt æskilegt með tilliti til vatnsverndar að haugsvæði yrði staðsett utan grannsvæðis vatnsverndar en áætlanir Vegagerðarinnar gera ráð fyrir að haugsvæði yrði nálægt vatnsbóli bæjarbúa. Sé það ekki mögulegt telur Skipulagsstofnun þörf á að gera sérstakt áhættumat vegna vatnsverndar í firðinum og ekki síður að meta þurfi hvort beinlínis sé þörf á vöktun mengunarefna á neysluvatni Seyðfirðingar á meðan framkvæmdum stendur.

Tölvumynd Vegagerðarinnar af fyrirhuguðum gangamunna Seyðisfjarðarmegin. Stutt er frá munnanum að vatnsbóli Seyðfirðinga og lýsir Skipulagsstofnun áhyggjum af því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.