Hús innarlega á Eskifirði rýmd
Ákveðið hefur verið að rýma innsta hluta Eskifjarðar í varúðarskyni vegna snjóflóðahættu úr fjallinu Harðskafa. Snjóflóð er talið hafa orsakað rafmagnsleyfi á Mjóafirði og stórt flóð féll úr Hólmatindi niður í Reyðarfjörð.Um klukkan hálf tvö í dag var ákveðið að rýma svæði 4 á Eskifirði, byggðina ofan Dalbrautar innan Bleiksár. Fjöldahjálparmiðstöð er í Eskifjarðarskóla en björgunarsveitarfólk aðstoðar fólk við að komast úr húsum sínum.
Hreinn Magni Jónsson, hópstjóri hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, segir hættumat Eskifjarðar gera ráð fyrir að á þessu svæði geti fallið snjóflóð við allra verstu aðstæður. Ekki séu þekkt stór flóð á þessu svæði en byggðin þar er frekar ung. Gripið sé til þessa í ljósi snjóalaga, en mikið hefur snjóað síðan í gærkvöldi á Austfjörðum.
Þrjú flóð féllu við Neskaupstað í morgun, þar af eitt á íbúðarhús. Það olli eignatjóni en ekki alvarlegum slysum á fólki. Nú er vitað um þrjú önnur snjóflóð á Austfjörðum.
Rafmagn fór af hluta Mjóafirðar á um klukkan hálf níu í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er rafmagnslaust frá Selhellu, sem segja má að sé ysta húsið í Brekkuþorpi að Hesteyri. Engin heilsárbúseta er á svæðinu, aðeins fjögur sumarhús. Rafmagn er á þorpinu sjálfu og Dalatanga.
Talið er að snjóflóð hafi fallið á línuna, enda á þekktu snjóflóðasvæði. Ófært er til Mjóafjarðar og ekki hættandi á að senda fólk miðað við núverandi aðstæður. Líklegast verður ástandið kannað frá sjó í betra veðri á morgun.
Ástæður þess eru ekki þekktar enda erfitt að komast á svæðið og hreinlega hættulegt því talið er að snjóflóð hafi valdið rafmagnsleysinu.
Í Reyðarfirði féll snjóflóð úr Hólmatindi og yfir veginn utan við álverið. Í Fannardal sást líka snjóflóð en það náði ekki niður á veg.
Húsin sem voru rýmd:
Bogahlíð 2,4,6,12 og 14
Brekkubarð 1-3
Dalbarð 2-4,6,8,11,13 og 15
Eskifjörður (nafn húss)
Fífubarð 1-11
Snjóflóð féll úr Harðskafa árið 2021. Mynd: Valbjörn J. Þorláksson