Hús Kjarvals komið aftur á sinn stað

Húsi listmálarans Jóhannesar S. Kjarval var komið aftur á sinn stað í Kjarvalshvammi í morgun en það var fært vegna endurbóta síðasta haust.

Húsið er í umsjá Minjasafns Austurlands og að sögn Elsu Guðnýjar Björgvinsdóttur, safnstjóra, var kominn tími á að fara í lagfæringar til að tryggja varðveislu hússins.

Síðasta haust var því farið í undirstöður hússins, sem voru orðnar lélegar og meðal annars steyptur undir það nýr sökkull. Á meðan þessu stóð þurfti að lyfta húsinu af gamla sökklinum en vegna vætutíðar var ekki hægt að koma því aftur á sinn stað, fyrr en í morgun.

Þá hefur klæðning verið lögðu, þar sem hún hefur verið farin að láta á sjá, en ekki er um að ræða neinar breytingar á húsinu. Húsið er á nokkrum stöðum orðið nokkuð fúið og viðgerðin vandasöm en Björn Björgvinsson, húsasmíðameistari frá Breiðdalsvík, hefur stýrt verkinu.

Það gerir verkið enn vandasamara að húsið ber ummerki um veru Kjarvals þar, meðal annars málningarslettur á gólfinu.

„Við þurfum að stíga varlega til jarðar því við þurfum að halda í karakter hússins og merki um veru Kjarvals. Næstu skref eru því meðal annars að tryggja að málningarsletturnar haldist og húsið standi áfram í hvamminum til minningar um listamanninn og tengsl hans við svæðið,“ segir Elsa Guðný.

Húsið var hið eina sem Kjarval eignaðist um ævina en hann bjó annars í leiguhúsnæði í Reykjavík. Þótt Kjarval væri fæddur á Suðurlandi var hann fimm ára tekinn í fóstur hjá skyldfólki á Borgarfirði eystra þar sem hann var þar til hann hélt til Reykjavíkur og síðar útlanda til að elta draum sinn um myndlistina.

Kjarval rækti ávallt tengslin við Borgarfjörð og sagan segir að sumarið 1948 hafi hann ætlað að fá far með bát frá Selfljótsbrú að Krosshöfða. Farið brást hins vegar og bað hann því bílstjórann að keyra sig til baka í hvamm einn sunnan við Ketilsstaði, á svæði sem heitir Græfur, en þar kvaðst hann hafa séð gott „mótív“.

Dvölin í hvamminum hafði slík áhrif á listamanninn að hann óskaði eftir því við Björn Guttormsson, bónda á Ketilsstöðum, að fá að reisa sér þar sumarhús. Björn brást vel við bóninni og gaf listamanninum hvamminn þar sem Kjarval reisti sér sumarhús og bátaskýli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.