Húsið hefur snúist hálfhring - Myndir
Húsið að Austurvegi 38, betur þekkt sem Breiðablik, virðist hafa snúist hálfhring þegar það færðist af undirstöðum sínum í aurskriðu í nótt.Nafnið Breiðablik er skrifað á skilti sem var á þeirri hlið sem vísar í áttina að Austurvegi og ferjuhúsinu. Núna sést skiltið ekki heldur blasa við dyr á bakhliðinni.
Áætlað er að húsið hafi færst um 50 metra við skriðuna í nótt. Það stendur nú þétt upp við innri enda bensínstöðvar Orkunnar.
Skriðan hljóp úr Nautaklauf, svipuðum stað og önnur skriða sem féll og umkringdi húsið á þriðjudag.
Ausandi rigning er á Seyðisfirði. Búðará fellur í einum fossi en á fleiri stöðum má sjá mikið vatn á ferðinni í hlíðinni, meðal annars í farvegi skriðu innst ofan götunnar Botnahlíða sem féll á þriðjudagskvöld. Vinnuvélar eru að moka götuna í jaðri svæðisins en fara með gát. Umferð í bænum er almennt bönnuð.