Húsnæðisskortur heftir uppbyggingu

Lausn húsnæðisvandans er eitt stærsta málið á Seyðisfirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á morgun. Framboðin þrjú eru sammála um að bregðast verði við en greinir á um hvaða leiðir eigi að fara. Seyðfirðingar eru opnir fyrir sameiningarviðræðum en vilja hafa varann á.

„Segja má að kyrrstaða hafi einkennt síðustu ár hjá bæjaryfirvöldum sem kristallast nú í aðkallandi vanda í húsnæðismálum sem og skorti á framtíðarsýn í stórum málaflokkum eins og ferðamálum,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Seyðisfjarðarlistans í framsöguræðu sinni á framboðsfundi á þriðjudag. Um leið kallaði hún eftir úrbótum til að bregðast við húsnæðisskorti.

Aðrir frambjóðendur af listanum komu inn á að setja þyrfti mark um fjölgun íbúa í bænum sem síðan yrði forsenda annarrar stefnumótunarvinnu.

Elvar Snær Kristjánsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði ekki nóg að deiliskipuleggja lóðir eins og Seyðisfjarðarlistinn hefur hamrað á. Einfalda þyrfti umsóknir um byggingaleyfi, fella niður gjöld og gera lóðir klárar fyrir framkvæmdir með jarðvegsskiptum.

„Húsnæðisskortur heftir uppbyggingu. Það er ekki ákjósanlegt að bæjarfélagið taki að sér uppbygginguna en bregðast verður við strax,“ sagði hann.

Bæði Seyðisfjarðalistinn og Sjálfsstæðisflokkurinn töluðu um að segja upp samningi um byggingafulltrúa eða endurskoða starf hans.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins voru sammála að bregðast þyrfti við húsnæðisskorti. Þeir minntu á að húsnæðisáætlun hefði verið samþykkti í apríl og eftir henni þyrfti að fara að vinna auk þess sem æskilegt væri að fá leigufélög til starfa á staðnum.

Svifasein stjórnsýsla

Frambjóðendur Héraðslistans hnýttu einnig í nefndakerfi bæjarins. Hildur sagði þörf á að nútímavæða stjórnsýslu bæjarins sem „einkenndist af hægagangi og flækjustigi.“ Afnema ætti bæjarráð til að herða á ákvörðunum og setja þær í hendur bæjarstjórnar. Um leið yrði að gefa nefndum bæjarins meira vægi.

Elvar Snær, sem verið hefur formaður umhverfisnefndar, gagnrýndi einnig seinaganginn. Í umræðum um nýafstaðinn umhverfisdag sagði hann frá því að hugmynd nefndarinnar um daginn frá ráðinu hefði „þvælst fram og til baka í bæjarkerfinu þar til ekkert gerðist.“

Heitt vatn í gegnum göngin

Seyðfirðingar hafa undanfarna mánuði skoðað leiðir til að bregðast við boðaðri lokun fjarvarmaveitu RARIK á staðnum en RARIK telur dreifikerfið úrelt og ekki svara kostnaði að gera við það. Sérfræðinganefnd frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu hefur hins vegar skoðað kerfið og svo virðist sem hægt sé að tjasla í kerfið.

„Það yrði þá tilbúið til að taka við heitu vatni frá Egilsstöðum í gegnum Fjarðarheiðargöng. Við styðjum það,“ sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins.

Rúnar Gunnarsson frá Seyðisfjarðarlistanum sagði hitaveitulausnirnar „eitt af leyndarmálum bæjarins. Það eru ýmsir að spjalla en við vitum ekki neitt.“

Arnbjörg Sveindóttir frá Sjálfstæðisflokknum sagðist bíða eftir skýrslu sérfræðingahópsins, í henni verði metið hvort hægt sé að finna varanlegar lausnir til að hitaveitukostnað bæjarins. Það sé aðalmálið og hitaveita frá Héraði sé trúlega besti kosturinn.

Fjarðarheiðargöng voru eðlilega á dagskrá. Um þau greindi framboðin ekki á en þau ræddu líka hvernig eigi að nýta tímann þar til þau komi.

Seyðfirðingar hafa varann á gagnvart sameiningu

Íbúar Seyðisfjarðar voru meðal þeirra sem svöruðu jákvætt könnun fyrir páska um möguleika á sameiningarviðræðum. Þórunn Hrund Óladóttir, Seyðisfjarðarlistanum, sagði vilja til að fara í könnunarviðræður við Borgarfjörð, Fljótsdalshérað og Djúpavog strax eftir kosningar. Íbúar fái síðan að kjósa þegar niðurstöðurnar liggi fyrir.

Elvar Snær sagði rétt að skoða „virkilega vel kosti og galla“ sameiningar, það hefði verið ekki verið gert af ráði fyrr en könnunin var gerð. Hann sagði ótta meðal íbúa um að týnast í sameiningu, tryggja þyrfti að stöðugildum hjá bænum fækkaði ekki né þjónusta skertist við sameiningu.

Eygló Björg vildi hægar í sakirnar og sagði Fjarðarheiðargöng niðurstaða sameiningar við Fljótsdalshérað. Fram að þeim væri æskilegt að „auka samstarf við vinveitt sveitarfélög í kringum okkur.“

Elvar Snær brá á leik í lok fundar og færði mótframbjóðendum sínum gjafir, Hildur fékk úr stillt 30 mínútur fram í tímann og Vilhjálmur gjafabréf á Facebook.

Hlusta má á fundinn í heild sinni á vef Tölvuskjásins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.