Hvaðan á að þjónusta olíuleit? Vopnfirðingum þykir hart og leitt að fá ekki meiri stuðning
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. sep 2012 22:51 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Vopnfirðingum þykja það mikil vonbrigði að sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað ætli að markaðssetja sveitarfélögin tvö sem sameiginlegt svæði fyrir þjónustu við hugsanlega olíuleit á Drekasvæðinu. Vopnfirðingar höfðu vonast eftir stuðningi annarra austfirskra sveitarfélaga við áframhaldandi uppbyggingu þeirra og Langanesbyggðar fyrir slíka miðstöð.
Samkeppni virðist hafin um hvaða svæði fái að þjónusta olíuleitarskip sem haldi til á Drekasvæðinu. Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð eru næst svæðinu en þjónustustig er hátt á Eyjafjarðarsvæðinu sem gerir það að álitlegum kosti. Helst virðist sem Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað saman geti keppt við Eyfirðingana.
Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans en tekist var á um málið á nýafstöðu þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Þar var tillaga Vopnfirðinga um áframahaldandi stuðning SSA við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar á norðursvæðinu.
Blaðið hefur eftir Þórunni Egilsdóttur, oddvita Vopnafjarðarhrepps að henni þyki „helvíti hart og leitt“ að Vopnfirðingar fái ekki frekari stuðning.
„Vopnafjarðarhreppur hefur lagt mikið í þessa vinnu og hefur markvisst stefnt að því að kynna Vopnafjarðarhöfn sem þjónustuaðstöðu meðan á rannsóknarferlinu stendur. Skýrsla varðandi þá vinnu hefur verið opinber frá 2007.“
Hún segir að það sé fordæmi fyrir breiðri samstöðu á Austurlandi og nefnir sem dæmi þá samstöðu sem ríkti þegar „farið var af stað með stórt verkefni á mið Austurlandi og við væntum sama stuðnings og menn fengu þá. Samstarfið hlýtur að þurfa að virka á báða bóga.“
Þórunn viðurkennir að „vissulega séu brestir“ í samstöðu sveitarfélaga á Austurlandi. Þrátt fyrir þetta ætli Vopnfirðingar að halda ótrauðir áfram sinni vinnu.
„En það er alveg ljóst og hefur alltaf verið í okkar huga að hér er um svo stórt verkefni að ræða að lítil sveitarfélög og þá meina ég öll sveitarfélög á Íslandi eru þess ekki megnug að standa ein í þessu. Þetta er fyrir þjóðina alla að takast á við og mæta ef af verður. Við höfum verið að horfa til fyrstu skrefanna í þessu verkefni og teljum okkur geta mætt því.
En það verður ekki ákvörðun sveitarstjórnarmanna hvar staðsetning verður. Fyrst þurfum við að vita hvort Ísland verður fyrir valinu og í framhaldi af því munu þeir sem vinna munu verkið taka ákvarðanir. Styrkur okkar er klárlega landfræðileg staðsetning.“