Hvalir á ferð í Berufirði

Vegfarendur á leið um Berufjörð hafa í dag getað fylgst með hvölum á ferð um fjörðinn, trúlega á eftir æti. Þeir bætast við þann fjölda hvala sem sést hafa á Austfjörðum í sumar.

„Mér fannst þeir vera tveir fyrst í morgun en sá ekki nema einn eftir hádegið. Hvalurinn er greinilega í æti fyrst hann stoppar svona lengi,“ segir Eðvald Smári Ragnarsson, íbúi á Djúpavogi sem var á ferð um Berufjörð í dag.

Hann segir bárur hafa verið á sjónum út af vindi og hvalurinn illa greinilegur nema þegar hann kom upp undir yfirborðið til að blása. Að sama skapi hefði verið erfitt að átta sig á tegundinni. Eðvald sagði nokkurn fjölda ferðafólks einnig hafa tekið eftir dýrunum og stoppað til að fylgjast með þeim.

Eðvald sagðist fyrst hafa orðið var við hvalinn í nágrenni Urðarteigs. Hann hafi meðal annars séð þá synda í kringum fiskeldiskvíar í firðinum.

Hvalir hafa víða sést, í lengri eða skemmri tíma, á Austfjörðum í júlí og ágúst. Meðal annars á Borgarfirði, í Mjóafirði, Reyðarfirði, Seyðisfirði og Stöðvarfirði.

Séð yfir Berufjörð. Mynd: Guðný Eyþórsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar