Hver er staðan í Fjarðabyggð?

Fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar, sem frestað var í morgun, verður framhaldið klukkan 16:00 í dag. Eftir fundinn er tíðinda að vænta um hvernig málin verða leyst en Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, lét óvænt af störfum í morgun.

Bæjarráð Fjarðabyggðar fundar á hverjum mánudagsmorgni klukkan 8:30 og á því var engin undantekning í morgun. Fundurinn stóð hins vegar stutt. Fyrsta mál á dagskrá var ósk Karls Óttars um að láta af störfum.

Í kjölfarið var fundinum frestað og boðað til fundar með starfsfólki. Tíðindin munu hafa komið því töluvert á óvart, sem og bæjarbúum sem fengu veður af stöðunni um svipað leyti.

Úr banka í opinbera stjórnsýslu

Karl Óttar var ráðinn bæjarstjóri sumarið 2018, að loknum sveitarstjórnarkosningum þar sem Framsóknarflokkur og Fjarðalisti mynduðu meirihluta eftir að eldri meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks féll. Karl Óttar starfaði þá sem yfirlögfræðingur Arion banka en hafði kynnst Austfjörðum í gegnum þungarokkshátíðina Eistnaflug þar sem hann var framkvæmdastjóri.

Starfsumhverfi bankans, sem er einkafyrirtæki, er töluvert frábrugðið því sem gerist í sveitarfélögum. Innan einkafyrirtækja er rík krafa um skilvirkni og starfsmönnum skipt út ef stjórnendur telja þá ekki standa sig eða falla inn í hópinn meðan nær ómögulegt er að hreyfa við opinberum starfsmönnum, nema undir formerkjum skipulagsbreytinga, því um þá gilda sérstök lög. Þau tryggja meðal annars rétt þeirra til áminninga og andmæla vegna frammistöðu í starfi. Þá verður lýðræðislegt ferli seint talið skilvirkt. Mörgum hefur reynst erfitt að færa sig milli þessara kerfa.

Erfið og umdeild mál

Viðmælendum Austurfréttar ber saman um að kjörtímabilið sé búið að vera erfitt. Í fjölmiðla hafa ratað mál eins og salan á Rafveitu Reyðarfjarðar, framkvæmdir og viðhald íþróttamannvirkja í Fjarðabyggð og starfsmannamál Slökkviliðs Fjarðabyggðar.

Karl Óttar hefur gengið í öll þessi mál og mikið mætt á honum. Heiftin hefur verið mikil, eins og sást á skrifum Reyðfirðinga á samfélagsmiðlum í kringum sölu Rafveitunnar þar sem helst var þess óskað að hann tæki pokann sinn sem fyrst og kæmi aldrei aftur í bæjarfélagið.

Við bætast starfsmannamál á skrifstofu bæjarins, sem ekki hafa alltaf farið hátt en sannarlega orðið erfið sem aftur hefur komið niður á starfsandanum þar. Þótt oft sé nauðsynlegt að utanaðkomandi stingi á kýlunum getur verið erfitt að takast á við eftirköstin. Sérstaklega getur þetta átt við ef sá sem gengur í málin á sér takmarkað félagslegt bakland í samfélaginu, meðan þeir sem verið er að vængstýfa eiga þar ættingja og vini. Það er gömul saga í austfirsku samfélagi.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru það því mörg erfið og umdeild mál sem leitt hafa til þeirrar stöðu sem nú er komin upp. Í yfirlýsingu sveitarfélagsins í morgun sem og viðtali Austurfréttar við Jón Björn Hákonarson, forseta bæjarstjórnar, kom fram að Karl Óttar hefði sjálfur óskað eftir að hætta. Austurfrétt hefur ekki nákvæmar heimildir um þá atburðarás síðustu daga sem leiddi til þeirrar niðurstöðu. Ekki hefur náðst í Karl Óttar en annars hefur verið vísað til yfirlýsingarinnar frá í morgun og þess að annarrar slíkrar sé að vænta að loknum bæjarráðsfundi seinni partinn.

Ekki hægt að leita lengi

Oddvitar meirihlutans, Eydís Ásbjörnsdóttir formaður bæjarráðs frá Fjarðalista og Jón Björn, frá Framsóknarflokki, hafa setið á fundum í allan dag við að greiða úr stöðunni en þau halda spilunum þétt upp að sér.

Það sem viðmælendur Austurfréttar eru sammála um er að útilokað sé að auglýst verði eftir bæjarstjóra. Slíkur einstaklingur kæmi aldrei til stafa fyrr en um áramót og þyrfti trúlega upp undir ár til að að komast inn í málin. Þar er sem aðeins eitt og hálft er eftir af kjörtímabilinu yrði sá einstaklingur rétt kominn inn í málin þegar því yrði lokið. Við bætist að framundan er krefjandi fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár þar sem hagræða þarf eftir Covid-faraldur og loðnubrest.

Af þessu leiðir að sá sem tekur við þarf að hafa góða þekkingu á bæjarmálunum í Fjarðabyggð til að geta hafist strax handa. Íbúar veðja þar helst á Jón Björn, sem starfað hefur í bæjarstjórn og fyrir bæinn í um 20 ár eða Gunnar Jónsson, bæjarritara sem verið hefur staðgengill bæjarstjóra. Þá var fjármálastjórinn, Snorri Styrkársson, meðal umsækjenda um starfið fyrir tveimur árum.

Hvort einhver þeirra taki við keflinu, eða einhver allt annar, skýrist væntanlega á bæjarráðsfundinum sem hefst aftur klukkan 16:00. Reikna má með að bæjarstjóramálin verði þar fremst á dagskrá en einnig á eftir að fara yfir önnur mál sem ekki náðist að klára áður en fundinum var frestað í morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar