Hvetja Austfirðinga sem fara á höfuðborgarsvæðið til árvekni

Covid-19 smit greindist í gær með einstaklingi með lögheimili á Austurlandi. Viðkomandi er þó ekki staðsettur í fjórðungnum. Aðgerðastjórn hvetur þá sem þurfa til Reykjavíkur eða eru að koma þaðan til árvekni.

Samkvæmt tölum frá Covid.is eru nú tvö virk smit á Austurlandi. Aðeins annar hinna smituðu er þó í einangrun á svæðinu, sá greindist við landamæraskimunum í síðustu viku.

Hitt tilfellið var staðfest í morgun en að því er fram kemur í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar á Austurlandi býr sá sem greindist nú ekki í fjórðungnum og því ekki í einangrun eystra.

Fram kemur að smitrakning hafi gengið vel en ekki er tekið fram í hvaða landshluta viðkomandi býr.

Aðgerðastjórnin vekur hins vegar athygli á áhyggjum almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra af stöðu Covid-faraldursins á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningunni segir að mikils vert sé að þeir sem þurfi suður hugi sérstaklega að einstaklingsbundnum smitvörnum og séu varkárir þegar komið sé þaðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar