Hvetja til ýtrustu varkárni við ferðir á höfuðborgarsvæðið

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hvetur íbúa og forsvarsfólk fyrirtækja og stofnana í fjórðungnum til að fara yfir smitvarnir sínar og skerpa á verklagi ef þess er þörf. Harðari takmarkanir tóku gildi á miðnætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórninni í dag. Þar er vakin athygli á nýju takmörkunum en þær þýða meðal annars að krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvar þurfa að loka auk þess sem fjöldatakmarkanir eru þrengdar í sundlaugum.

Aðgerðastjórnin áréttar hins vegar að staðan í fjórðungnum sé ágæt, aðeins einn einstaklingur er í einangrun vegna virks smits og fáir í sóttkví.

Hún minnir hins vegar á að lítið megi út af bregða. Því sé mikilvægt að allir fylgi breyttum reglum, rýni sínar smitvarnir og skerpi á verklagi ef þörf er á. Mikilvægt sé að kynna reglurnar vel og viðhafa ýtrustu varkárni sé haldið á höfuðborgarsvæðið, þar sem smit eru flest. Einnig sé rétt að viðhafa aðgát þegar komið sé til baka. Hvatt er til þess að þeir sem ekki hafa sótt smitrakningarappið sæki það sem fyrst.

Aðgerðastjórnin ítrekar mikilvægi þess að virða fjarlægðarmörk, nota grímur samkvæmt reglum, þvo hendur vandlega með sápu og spritta hendur eftir snertingu við fleti sem margt fólk kemur við. „Þrömmum þetta svo saman í þessu skúraveðri og skýlum hvort öðru þar til styttir upp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar