Hyllir undir skosku leiðina í fjárlagafrumvarpinu
Niðurgreiðsla flugfargjalda fyrir íbúa landsbyggðarinnar er eitt af áhersluverkefnum samgönguráðuneytisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020. Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir ánægjulegt að eitt af stærstu áherslumálum landsbyggðarinnar sé að verða að veruleika.Fjárlagafrumvarp komandi árs var kynnt fyrir helgi en það verður tekið til umræðu þegar Alþingi kemur saman á ný á morgun.
Samkvæmt því er það að hefja kostnaðarþátttöku ríkisins í flugfargjöldum innanlands fyrir íbúa landsbyggðarinnar eitt af helstu verkefnum samgönguráðuneytisins á næsta ári.
Slík niðurgreiðsla fyrir íbúa þéttbýlis þekkist víða í Evrópu þótt hún gangi undir nafninu „skoska leiðin“ hérlendis. Leiðin var fyrst kynnt af Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, í grein á Austurfrétt í maí 2016. Síðan hefur Jóna meðal annars setið í starfshópum á vegum ríkisins um málefni innanlandsflugs. Hún segir ánægjulegt að hugmyndirnar séu að verða að veruleika.
„Þetta hefur verið eitt af stóru verkefnunum sem Austfirðingar og íbúar landsbyggðarinnar hafa unnið að sem er að fá flugið viðurkennt sem mikilvægt samgöngutæki og hluta af almenningssamgöngum.
Það er ánægjulegt að sjá þessum hugmyndum um lausn vel tekið af þinginu og mjög mikilvægt að sjá þeim stað í fjárlagafrumvarpinu,“ segir Jóna Árný.
Mikilvægt að byrji sem fyrst
Ekki kemur fram hversu há upphæð er ætluð í niðurgreiðsluflugsins. Útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála aukast hins vegar um tæpa fjóra milljarða á föstu verðlagi og er útgjaldasvigrúmið frá árinu 2019 til 2020 um 5,5 milljarðar. Heildarútgjöld til málaflokksins eru ætluð rúmir 47,6 milljarðar.
Ekki kemur heldur fram hvenær reiknað er með að skoska leiðin gangi í gildi. „Við leggjum áherslu á að þetta verði innleitt í byrjun árs 2020, eins og fram kemur í þeirri samgönguáætlun sem er í gildi,“ segir Jóna Árný.
Varaflugvellir efldir
Samgöngu- og fjarskiptamál eru eitt af aðaláherslumálum fjárlaga komandi árs. Í kynningu frumvarpsins kemur fram að önnur helstu markmið í málaflokknum sé meðal annars í stórsókn í vegamálum með aukinni uppbyggingu og viðhaldi vega, uppbygging almenningssamgangna um allt land og ljósleiðaravæðing í dreifbýli.
Hækkun á framlagi til framkvæmda og viðhalds í í vegakerfinu er um 4 milljarðar og framlag til þjónustu um 650 milljónir. Meðal verkefna í vegamálum eru aukin vetrarþjónusta, fækkun einbreiðra brúa og stytting malarvega í byggð. Innleiða á heildarstefnu í almenningssamgöngur á landi, lofti og legi.
Hefja á viðræður við Isavia um nýtt fyrirkomulag rekstrar flugvallanna þriggja sem eru varavelli fyrir Keflavík, en flugvöllurinn á Egilsstöðum er þar á meðal. Endurnýjun slitlags á vellinum er ein helsta aðgerðin í auknu viðhaldi innanlandsflugvalla. Á öðrum stað í frumvarpinu kemur fram að semja eigi við Reykjavíkurborg um fyrirhugaða flugstöð við Reykjavíkurflugvöll.
Meðal einstakra verkefna í fjarskiptamálum má nefna að lokið verður við hringtengingu ljósleiðara á Austfjörðum, milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar um Mjóafjörð.