Í varðhaldi fyrir árás á Vopnafirði til 10. janúar
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um karlmaður, sem setið hefur í gæsluvarðahaldi vegna tilraunar til manndráps á Vopnafirði um miðjan október, skuli vera áfram í varðhaldi. Réttarlæknir segir allt bend til að fórnarlambið hafi verið sett í lífshættulegt ástand.Maðurinn var hefur setið í varðhaldi frá 19. október, fyrir að hafa seinni part 16. október ráðist að fyrrum sambýliskonu sinni með járnkarli. Maðurinn var handtekinn eftir árásina þar sem hann viðurkenndi að hafa lent í deilum og alvarlegum átökum við konuna. Honum var sleppt eftir skýrslutöku en konan var þá komin á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Hann var handtekinn aftur að kvöldi 18. október en seinni part þess dags hafði lögreglan á Austurlandi fengið annars vegar skýrslu sem lögreglan á Norðurlandi eystra tók af konunni, hins vegar áverkavottorð læknis sem taldi árásina hafa verið hættulega.
Lögreglan á Austurlandi lauk rannsókn sinni á málinu fyrir viku og sendi það þá áfram til Héraðssaksóknara. Það embætti óskaði eftir og fékk framlengingu á gæsluvarðhaldi til 10. janúar. Á þeim tíma verður tekin ákvörðun um ákæru.
Fyrrum sambýliskona sett í lífshættulegt ástand
Í greinargerð saksóknarembættisins fyrir héraðsdómi er vitnað til skýrslu réttarlæknis sem styður fyrri gögn lögreglu og frásögn konunnar um að maðurinn hafi lagt til hennar með járnkarli og reynt að kyrkja hana. Réttarlæknirinn segir áverka á hálsi konunnar samræmast teininum og því að klemmt hafi verið að af öðrum aðila. Eins bendi þeir til að blóðflæði hafi verið hindrað í „drjúga stund.“ Með því hafi konan verið „sett í lífshættulegt ástand.“
Hægt er að halda fólki í gæsluvarðhaldi ef grunur er um að það hafi framið brot sem varðar tíu ára fangelsi eða meira. Tilraun til manndráps fellur undir þann refsiramma. Héraðssaksóknari segir í sinni greinargerð að maðurinn sé undir sterkum grun um tilraun til manndráps. Á þeim forsendum fellst héraðsdómur á að maðurinn sæti áfram varðhaldi.
Fær ekki að taka varðhaldið út á sjúkrastofnun
Maðurinn áfrýjaði úrskurðinum til Landsréttar og óskaði eftir að fá að taka varðhaldið út á sjúkrastofnun. Í gögnum málsins kemur fram að hann hafi verið lagður inn á hana fljótlega eftir fyrsta úrskurðinn þar sem hann gæti valdið sjálfum sér eða öðrum skaða. Hann hafi sætt slíkri vistun nær í um mánuð. Um miðjan nóvember hafi ekki verið talin þörf á henni lengur heldur langvarandi meðferð.
Landsréttur taldi engin ný gögn hafa komið fram sem bentu til þess að maðurinn þyrfti að vera á sjúkrahúsi en ítrekaði að hann nyti heilbrigðisþjónustu í samræmi við réttindi í fangelsinu.
Í gær var einnig birtur á vef Landréttar annar úrskurður í málinu. Sá féll um miðjan nóvember, þegar varðhaldið var framlengt og maðurinn fluttur aftur í fangelsi. Hann vildi frá gæsluvarðahaldinu hnekkt með öllu. Dómari taldi ekkert gefa tilefni til annars en að sakarefnið, tilraun til manndráps, væri rétt skilgreint af hálfu lögreglu.