Íbúafundur og auka bæjarstjórnarfundur um Rafveitu Reyðarfjarðar eftir helgi
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær að boða til íbúafundar til að kynna fyrirhugaða sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Bæjarfulltrúar segja Rafveituna verða orðna of litla til að standa sjálfstætt. Þeir vilja nýta söluhagnaðinn til að byggja upp íþróttamannvirki á Reyðarfirði.Kauptilboð Rarik og Orkusölunnar í Rafveituna hafa verið til umfjöllunar innan bæjarráðs sem trúnaðarmál síðustu vikur. Á bæjarstjórnarfundi í gær var hins vegar trúnaði létt af hluta málsins.
Samkvæmt greinargerð sem kynnt var á fundinum hefur Rarik boðið 440 milljónir króna í dreifikerfi og spennistöðvar Rafveitu Reyðarfjarðar, auk búnaðar og tækja.
Þá hefur Orkusalan boðið 130 milljónir í raforkuviðskipti Rafveitunnar, yfirtöku á samningum við Landsvirkjun ásamt rafstöð og stíflu í Búðará. Kaupsamningarnir eru háðir fyrirvara samþykkis Samkeppniseftirlitsins um orksölu veitunnar og að iðnaðarráðherra samþykki yfirtöku Rarik á einkaleyfi Rafveitunnar til orkudreifingarinnar.
Framleiðir 5% rafmagnsins sjálf
Í greinargerðinni er bent á að Rafveita Reyðarfjarðar sé síðasta dreifiveita rafmagns hérlendis sem sé í beinni eigu og rekstri sveitarfélags. Á sama tíma sé umhverfi og reglur veitna í raforkulöggjöf orðið verulega snúið og umfangsmikið.
„Um langt árabil hefur Rafveita Reyðarfjarðar framleitt um 5% af því rafmagni sem hún endurselur en 95% hafa verið keypt á heildsölumarkaði og það ásamt auknum kröfum í rekstrarumhverfi, samkeppni á raforkumarkaði og tæknilegum lausnum gera sveitarfélaginu erfitt fyrir með áframhaldandi rekstur á henni í sínu starfsumhverfi.
Því telur bæjarstjórn rétt að selja áðurnefndum aðilum Rafveitu Reyðarfjarðar sem sérhæfðir eru í rekstri rafmagnsveitna og sölu raforku í samkeppnisumhverfi enda geti þeir nýtt stærðarhagkvæmni og veitt sömu þjónustu til viðskiptavina veitunnar til framtíðar. Þá eru RARIK og Orkusalan í opinberri eigu, með starfsemi á Austurlandi, og þannig er tryggt að notendur rafveitunnar sitji við sama borð og aðrir íbúar landshlutans hvað varðar öryggi og þjónustu,“ segir í greinargerðinni.
Íþróttahús fyrir söluágóðann
Hópur Reyðfirðinga mætti á fundinn í gær til að láta í ljós andstöðu við samninginn, einkum að svo virtist sem ekki ætti að kynna málið fyrir íbúum áður en salan yrði staðfest. Í samtali við Austurfrétt í gær sagði einn þeirra, Agnar Bóasson, að Rafveitan hefði verið stofnuð fyrir samtakamátt Reyðfirðinga árið 1930. Hann benti einnig á að rekstur Rafveitunnar hefði gengið vel og hún skilað sveitarfélaginu og samfélaginu góðum arði ár eftir ár.
Á fundinum í gær var samþykkt að halda íbúafund um málið á mánudagskvöld til að kynna málið og aukafund bæjarstjórnar á þriðjudag þar sem endanleg ákvörðun verður tekin.
Í greinargerð bæjarstjórnar er vilja lýst til að nýta þá fjármuni sem Fjarðabyggð fær fyrir söluna, eftir skatta, fyrst og fremst til að byggja upp íþróttahús Reyðarfjarðar „ásamt öðrum slíkum mannvirkjum og samfélagslegum verkefnum þar í samfélaginu.“ Frekar áætlanir þar um verða unnar þegar ákvörðun liggur fyrir um söluna.
Of lítil eining til að haldast á floti
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði að Fjarðabyggð hefði óskað eftir því við fjármálaráðherra að þurfa aðeins að greiða fjármagnstekjuskatt, líkt og gert var við aðrar dreifiveitur sem seldar voru áður en ný raforkulög tóku gildi árið 2006. Þá mun Fjarðabyggð halda eftir eignum upp á 40-50 milljónir frá Rafveitunni, svo sem áhaldahúsi, bifreiðum og fleiri tækjum.
Þeir bæjarfulltrúar sem tóku til máls á fundinum í gær lýstu yfir stuðningi við sölunnar á svipuðum nótum og tilgreint var í greinargerðinni. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs, benti á að reksturinn yrði sífellt flóknari og kröfurnar ykjust með raforkulögum. Hún bætti við að fulltrúar Ungmennafélagsins Vals og Íbúasamtaka Reyðarfjarðar hefði verið boðið á fund eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á mánudag til að ræða mögulega uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Hjördís Helga Seljan, Fjarðalistanum, vísaði einnig til aukinna krafna til rafveita. Hún sagðist bera mikla virðingu fyrir sögu og menningu Reyðarfjarðar og Rafveitan væri henni hjartans mál eins og mörgum öðrum Reyðfirðingum. Þess vegna væri ekki tekin ákvörðun án þess að kynna málið íbúum. Þá væri mikilvægt að settir yrðu skýrir skilmálar í kaupsamninginn um viðhald húsnæðis og búnaðar og ágóðinn nýttist til samfélagslegra verkefna.
Rúnar Már Gunnarsson, Miðflokknum, sagðist flokkinn almennt á móti sölum sem þessari og hann hefði verið mjög efins í byrjun. Eftir að hafa farið í gegnum gögn málsins væri það niðurstaða hans að ekki væri hægt að reka jafn litla einingu og Rafveitu Reyðarfjarðar í dag.
„Hún er svo lítil, framleiðir bara 5% sjálf, hitt erum við að gambla með á uppboðsmarkaði. Það er ekki í verkahring sveitarfélags að vera á uppboðsmarkaði. Eftir að hafa skoðað allt er ég sammála því að þessi sala sé það eina í stöðunni,“ sagði Rúnar en bætti við að hann væri opinn fyrir því ef nýjar upplýsingar kæmu fram á mánudag sem hann vissi ekki um í dag.
Hluti þeirra Reyðfirðinga sem mættu á fundinn í gær. Mynd: Agnar Bóasson