Íbúar á Austurlandi hvattir til að taka þátt í íbúakönnun

Landshlutasamtök sveitarfélaga standa þessa dagana fyrir sameiginlegri íbúakönnun á Íslandi. Íbúar á Austurlandi eru hvattir til að taka þátt í könnuninni því að því fleiri sem taka þátt því betur er hægt að leggja mat á og vinna úr niðurstöðunum.

Það er Vífill Karlsson hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) sem leiðir þessa könnun. Hann segir að könnunin taki til þátta varðandi almenna velferð íbúa, ánægju þeirra og framtíðaráform, vinnumarkað og búsetuskilyrði.

„Könnunin er hugsuð sem mikilvægt greiningartæki fyrir sveitarstjórnarfólk og aðra sem sinna byggðamálefnum,“ segir Vífill.

Þeir sem lentu í úrtakinu fengu tölvupóst í lok ágúst þar sem óskað var eftir þátttöku þeirra. SSV hvetur alla þá sem lenda í úrtaki að svara spurningakönnuninni til að niðurstöðurnar verði sem marktækastar. Hvert svar hefur mikla þýðingu.

Fram kemur í máli Vífils að þetta sé í fyrsta sinn sem könnunin nær til landsins alls, en SSV hafa um árabil gert könnun á sínu svæði og undanfarin ár hafa fleiri landshlutasamtök tekið þátt.

„Könnunin hefur sagt okkur mjög mikið um veikleika og styrkleika í hverjum landshluta fyrir sig. Það hefur gefið atvinnuþróunarstarfi landshlutasamtakanna betri forsendur til að rækja skyldur sínar gangvart íbúum og sveitarfélögunum,“ segir Vífill.

„Starfsmenn þeirra þekkja miklu betur hug íbúanna eftir að kannanirnar fóru af stað. Aðstæður breytast hratt, eins og mikilvægi nettenginga og umhverfismál eru dæmi um. Þess vegna þarf að gera svona kannanir með reglubundnum hætti."

Hægt er að taka þátt í könnuninni hér. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar