Íbúar ætla að mótmæla sölu Rafveitu Reyðarfjarðar
Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vill ekki staðfesta hvað sé á dagskrá fundar bæjarstjórnar í dag undir lið um Rafveitu Reyðarfjarðar. Íbúar óttast að verið sé að selja Rafveituna og hafa boðað komu sína á fundinn til að mótmæla því.„Ég mun kynna þetta í dag,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar aðspurður um hvort til standi að ræða sölu Rafveitu Reyðarfjarðar á fundi bæjarstjórnar í dag.
Málefni rafveitunnar eru á dagskránni sem sérliður sem vísað hefur verið úr bæjarráði til bæjarstjórnar til afgreiðslu. Málefni Rafveitunnar hafa verið til umræðu í bæjarráði síðustu vikur en verið bókuð sem trúnaðarmál. Þar með er ekki hægt að sjá nákvæmlega hvað er til umræðu undir liðnum.
Bæjarbúar vilja fylgjast með málunum
Meðal Reyðfirðinga hefur hins vegar kvisast út að til standi að taka ákvörðun um sölu Rafveitunnar og hafa þeir boðað komu sína á fundinn, sem hefst á bæjarskrifstofunum á Reyðafirði klukkan 16:00, í mótmælaskyni.
„Það ætla einhverjir að mæta til að sýna að þeim sé ekki sama. Það þarf meiri sannfæringu í málið þegar fólk situr fyrir framan þig og þú horfir framan í það.
Við erum ósátt við vinnubrögðin. Við viljum vekja athygli á að bæjarbúa vilja fylgjast með því sem er í gangi og eru ekki sama um það sem verið er að gera,“ segir Agnar Bóasson, íbúi á Reyðarfirði, sem kveðst hafa heimildir fyrir því að fyrir liggi kauptilboð frá Rarik og Orkusölunni fyrir 600 milljónir króna.
Eign sem hefur reynst samfélaginu vel
Rafveita Reyðarfjarðar var stofnuð 1. apríl árið 1930 og verður því 90 ára á næsta ári. Reyðfirðingar stóðu þá saman um að taka lán til að virkja Búðará og koma á rafmagni í bænum. Áður hefur komið til tals að selja Rafveituna. Árið 2004 bauð Rarik í hana en því var hafnað.
Miðað við ársreikninga hefur rekstur Rafveitunnar gengið ágætlega undanfarin ár því í ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir síðasta ár kemur fram að hún hafi skilað 15,6 milljóna afgangi.
Þá er raforkuverð frá henni í meðallagi samanborið við aðra orkusala í landinu, samkvæmt samanburði Aurbjargar. Hjá Rafveitu Reyðarfjarðar kostar kílówattstundin 7,61 kr. en til samanburðar 7,99 kr. hjá Orkusölunni og 7,15 kr. hjá Íslenskri orkumiðlun, þar sem hún er ódýrust.
„Það eru ýmis sjónarmið sem liggja að baki. Þetta er eina litla veitan sem er eftir á landinu og hún hefur staðið ýmislegt af sér. Hún hefur stutt við samfélagið á ýmsan hátt sem hefur lítið sést í bókhaldinu.
Sérstaklega eldra fólk hefur taugar til hennar. Íbúar lögðu mikið á sig við að byggja hana upp og koma á rafmagni sem var ekki sjálfsagt á þessum tíma. Þetta er eign sem hefur malað gull frekar en hitt og fólk vill halda í, meðan hún er ekki baggi á samfélaginu,“ segir Agnar.
Allir fundir bæjarstjórnar opnir
Jón Björn segir mál Rafveitunnar hafa fengið svipaða meðferð og önnur svipuð mál sem trúnaður hefur ríkt um þar til komið er að umfjöllun bæjarstjórnar. „Við höfum verið samkvæmt sjálfum okkur í þessum málum. Það hefur verið unnið með þetta mál sem trúnaðarmál og því nú vísað til bæjarstjórnar.“
Hann segir íbúum velkomið að mæta á fundinn. „Allir fundir bæjarstjórnar eru opnir gestum. Eina atriðið er að virða reglur um fundi bæjarstjórnar, þetta eru fundir hennar en ekki umræðufundir úti í sal.“