Íbúar Fljótsdalshéraðs hlynntastir sameiningu: Vopnfirðingar og Fljótsdælingar andvígir

Íbúar Fljótsdalshéraðs eru þeir einu sem eru áberandi fylgjandi sameiningu sex sveitarfélaga á Austurlandi. Aðrir sameiningarkostir fá dræmar undirtektir en víða er vilji til aukins samstarfs. Fljótsdælingar og Vopnfirðingar vilja engar sameiningar.

Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem lögð var fyrir íbúa Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðarhrepps, Vopnafjarðarhrepps og Djúpavogshrepps í mars. Könnunin var send öllum íbúum sveitarfélaganna í pósti.

Frá síðasta hausti hafa sveitarfélögin, sem þegar eiga í samstarfi um brunavarnir og félagsþjónustu, átt í viðræðum um frekara samstarf og í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var ákveðið að kanna hug til sameiningar.

Í könnuninni var kannaður hugur til sameiningar sveitarfélaganna sex, sameiningar alls Austurlands, annarra sameiningarkosta, engrar sameiningar eða frekara samstarfs. Þá var einnig spurt um áhuga á sveitarstjórnarmálum.

Héraðsbúar til í hvað sem er

Íbúar Fljótsdalshéraðs sýna áberandi mestan vilja til sameiningar, 64% vilja sameina öll sveitarfélögin sex og 32% allt Austurland. 19% velja aðra kosti, flestir að sameina sveitarfélögin fjögur á miðsvæðinu en og svo að sameinast bara Fljótsdælingum. Aðeins 5% Héraðsbúa vilja enga sameiningu, langlægsta hlutfallið í könnuninni.

51% Seyðfirðinga vilja sameina sveitarfélögin sex og 20% allt Austurland en 13% enga sameiningu. 28% vilja aðrar sameiningar, helst bara við Fljótsdalshérað en einnig eru margir til í að hafa Fljótsdalshrepp með.

Flestir þeirra Djúpavogsbúa sem taka afstöðu vilja sameiningu sveitarfélaganna sex eða 41% og 27% vilja sameina allt Austurland. 18% nefna aðra kosti og dreifast þeir nokkuð jafnt á að vilja Hornafjörð, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað einvörðungu. 16% vilja enga sameiningu.

Á Borgarfirði vilja 26% sameiningu sveitarfélaganna sex, 15% vilja sameina allt Austurland en 25% enga sameiningu. 19% vilja aðrar sameiningar sem væru þá við annað hvort bara við Fljótsdalshérað eða með Fljótsdalshreppi með.

Fljótsdælingar og Vopnfirðingar vilja engar sameiningar

59% þeirra sem svara könnuninni á Vopnafirði vilja enga sameiningu og 17% aðra kosti. Sameining við Langanesbyggð er þar oftast nefnd. 14% eru til í sameiningu sveitarfélaganna sex og 8% vilja sameina allt Austurland.

Séu niðurstöðurnar á Héraði afgerandi með sameiningu eru niðurstöðurnar í Fljótsdal afgerandi gegn henni, 67% vilja enga sameiningu. 7% vilja sameina allt Austurland og 6% vilja aðra kosti, aðallega Fljótsdalshérað. Aðeins 2% vilja sameiningu sveitarfélaganna sex.

Áhugi fyrir auknu samstarfi er mestur í litlu sveitarfélögunum, Borgarfirði og Fljótsdal, helmingur aðspurða þar segist fylgjandi. Þar á eftir styðja 40% það á Vopnafirði og 35% í hinum sveitarfélögunum þremur.

Borgfirðingar áhugasamir um sveitastjórnarmál

Svör við spurningunum um áhuga á sveitastjórnarmálunum eru athygliverðar og haldast í hendur við þátttöku í könnuninni. Hún er best í Fljótsdal 77%, 58% á Borgarfirði, 55% á Seyðisfirði, 51% Djúpavogi, 45% á Vopnafirði en lökust, 40% á Héraði.

Það jákvæða er að almennt virðast íbúar fylgjast vel með sveitastjórnarmálum, hæst er hlutfallið á Borgarfirði, 83% en læst, 60% á Héraði. Í hinum sveitarfélögum fjórum er hlutfallið um 70%.

Að sama skapi segjast aðeins 9% Borgfirðinga engan áhuga hafa á sveitastjórnarmálum en á móti 26% Vopnfirðinga og 28% Héraðsbúa. Í hinum sveitarfélögunum þremur er hlutfallið 12-15%. Þessum tölum má þó taka með þeim fyrirvara að líklegt er að þeir sem svari könnun sem þessari yfir höfuð hafi meiri áhuga á málefninu en þeir sem ekki svara.

Eins er áhuginn á að bjóða sig fram til sveitastjórnar mestur á Borgarfirði, 21% svarenda eru tilbúin til þess og 17% í Fljótsdal. Lægst er hlutfallið, 8% á Héraði en þó eru 80 svör að baki sem ætti að duga vel til að manna bæjarstjórnina. Í hinum sveitarfélögunum þremur er hlutfallið 10-12%.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.