Íbúaþing helgað framtíðinni í Fljótsdal um helgina

Um helgina er boðið til samfélagsþings í Fljótsdal. Gunnþórunn Ingólfsdóttir oddviti Fljótsdalshrepps segir þingið vera hluta af stærra samfélagsverkefni til að efla byggð og samfélag í Fljótsdal „Þingið sjálft er helgað framtíðinni og hvert skuli stefna.“

 Þingið verður haldið í Snæfellsstofu, Skriðuklaustri og ber yfirskriftina Fljótsdalur til framtíðar – hvert skal stefna?  Það er ætlað íbúum og öðrum velunnurum samfélagsins „Við viljum ná til þeirra sem hafa sem hafa tengsl og rætur í Fljótsdal svo sem starfsmanna fyrirtækja/stofnana í hreppnum, brottfluttra, afkomenda Fljótsdælinga og jarða- og sumarbústaðaeigenda,“ segir Gunnþórunn.  

Þingið stendur í tvo daga og er ekki fyrirfram mótuð dagskrá, heldur geta allir viðstaddir stungið upp á umræðuefnum, sem síðan eru rædd í smærri hópum. Dagskráin stendur frá kl. 11 – 16 á laugardaginn og frá kl. 11 – 15 á sunnudaginn. Gunnþórunn segir afrakstur þingsins verða nýttan til að skilgreina þá valkosti sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir. „Á sunnudaginn er ætlaður tími til að draga saman niðurstöður og kynna en í framhaldinu verður unnið með þær. Til að mynda vonum við að eitthvað af hugmyndum þingsins komi til framkvæmda í skilgreindum verkefnum.“

Gunnþórunn segist renna frekar blint í sjóinn með það hversu mörgum þau geti átt von á á þingið. „Við bjóðum uppá skráningu en það er ekki gerð krafa um að vera skráð til að mæta. Fólki er velkomið að koma og fara eins og hentar og við búum okkur undir svona á bilinu 30 - 40 manns á einhverjum tímum. Ég vona bara að sem flestir láti sjá sig og hjálpi okkur með þetta“ segir Gunnþórunn létt að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar