Ingvar Georg nýr slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Gengið var frá ráðningu nýs slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Fjarðabyggðar fyrir skömmu en fyrir valinu varð Ingvar Georg Georgsson. Fjórir einstaklingar sóttu um stöðuna.
Staðan var auglýst laus til umsóknar í byrjun septembermánaðar en umsóknarfrestur rann út 13. október. Fjórir föluðust eftir stöðunni og þar af þrír sem boðaðir voru í viðtöl í kjölfarið. Aðrir sem um sóttu voru Björn Halldórsson, þjálfunarstjóri, Júlíus Albert Albertsson, slökkviliðsstjóri og Leifur Andrésson Thomsen, framleiðslustarfsmaður.
Ingvar Georg hefur mikla og langa reynslu bæði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og lengst af verið staðsettur á Suðurnesjum. Þar starfað bæði hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli sem og hjá Brunavörnum Suðurnesja. Þá hefur Ingvar reynslu af störfum fyrir Landssamband slökkviliðsmanna og hann, ásamt félaga sínum, kom á fót eina slökkviliðsminjasafni landsins sem var rekið um tíu ára skeið í Keflavík.
Ingvar mun formlega hefja störf þann 1. febrúar næstkomandi.