Ingvar Þóroddsson sækist eftir fyrsta sætinu hjá Viðreisn

Ingvar Þóroddsson, verkfræðingur og framhaldsskólakennari á Akureyri, hefur gefið kost á sér í fyrsta sætið á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Ingvar skipaði þriðja sætið hjá framboðinu í kjördæminu fyrir tveimur árum.

Ingvar er 26 ára Akureyringur, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri sem lærði verkfræði við Háskóla Íslands og Berkeley háskóla í Kaliforníu. Hann sneri þaðan heim til Akureyrar eftir lok meistaranáms og kennir í dag stærðfræði og eðlisfræði við MA. Hann er varaformaður unglingahreyfingar Viðreisnar. Foreldrar Ingvars eru Þóroddur Ingvarsson og Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir, læknar á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Í tilkynningu segist Ingvar ávallt hafa haldið í sín grunngildi sem séu frelsi einstaklingsins, sterkt markaðshagkerfi, alþjóðasamstarf og að öllum séu tryggð jöfn og góð tækifæri.

Hann segir fagnaðarefni að tími síðustu ríkisstjórnar sé liðin. Kjörtímabilið hafi einkennst af óreiðu í ríkisfjármálum og óeiningu sem leitt hafi til hárrar verðbólu og vaxta sem bitni ekki síst á barnafjölskyldum. Þá hafi orkumálum verið „haldið í gíslingu.“ Hann kveðst einnig ætla að leggja áherslu á menntamál og vísar til að kannanir um námsárangur veki hjá honum áhyggjum.

„Ég ætla mér að vera öflugur fulltrúi Norðausturkjördæmis, Viðreisnar, og ungs fólks og barnafjölskyldna um land allt, hljóti ég umboð flokksins og kjósenda til þess. Ég vil leggja mitt af mörkum svo hér geti tekið við ríkisstjórn með Viðreisn innanborðs, sem hefur frjálslynd gildi að leiðarljósi, tekst á við verðbólguna og ryður hindrunum úr vegi fólks og fyrirtækja, í stað þess að búa þær til,“ segir hann í tilkynningu sinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar