Innan við 1% fjár Tækniþróunarsjóðs til Austurlands

Minna en 1% þess fjár sem stærsti einn stærsti nýsköpunarsjóður landsins, Tækniþróunarsjóður, úthlutar á hverju ári rennur til Austurlands. Austfirðingar virðast sækja minna fé til nýsköpunar en aðrir.

Þetta kemur fram í nýlegu svari Þordísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, um stuðning við nýsköpun eftir landshlutum.

Tækniþróunarsjóði er ætlað að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Á tímabilinu 2009-2018 voru greiddar úr honum 13,5 milljarðar króna til alls 730 verkefna.

Af þeim fóru 85 milljónir króna, eða 0,6% til Austurlands, sem er langlægsta upphæð einstaks landshluta. Það fer reyndar saman við að Austfirðingar áttu langfæstar umsóknir í sjóðinn en hlutfall þeirra sem fengu styrki var svipað og í öðrum landshlutum. Langmest styrkjanna, 90%, fór á höfuðborgarsvæðið.

Í svarinu er einnig að finna fjölda umsókna og úthlutanir um endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja en lög sem heimiluðu slíkar endurgreiðslur voru samþykkt árið 2010.

Á tímabilinu frá 2011-2018, eða öllu heldur 2014-18 þar sem engin umsókn barst frá Austurlandi fyrstu þrjú árin, komu 11 umsóknir úr fjórðungnum um endurgreiðslur. Aðeins einni var hafnað.

Aftur kom langlægsta upphæðin austur 36,7 milljónir eða 0,2%. Heildarendurgreiðslur námu rúmum 16 milljörðum króna.

Tækniþróunarsjóður stendur í dag fyrir kynningarfundi þar sem bæði verður farið yfir styrkjaúthlutanir hans, sem og skattaafslátt vegna rannsókna- og þróunarverkefna en næstu umsóknarfrestur í sjóðinn er 17. febrúar. Kynningarfundurinn hefst klukkan 12:00 í húsnæði Austurbrúar á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.