Innanlandsflug niðurgreitt frá 1. september?

Stefnt er að því að niðurgreiðsla hefjist á innanlandsflugi fyrir íbúa á svæðum hefjist þann 1. september næstkomandi. Framkvæmdastjóri Austurbrúar er meðal þeirra sem sæti eiga í verkefnishópi sem ætlað er að útfæra niðurgreiðsluna.

Stefnt er að því að greiðsluþátttakan hefjist 1. september og til ársloka verði hægt að nýta niðurgreiðslu í einni ferð fram og til baka. Frá og með 1. janúar 2021 skuli greiðsluþátttaka miðast við þrjár ferðir fram og til baka, að því er fram kemur í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

Hópnum er falið að útfæra framkvæmd verkefnisins, gera tillögur að nauðsynlegar breytingum á bókunarkerfum flugrekenda, setja upp verklag um endurgreiðslu til flugrekenda og greiðslukerfi og verklag um endurskoðun og eftirlit með að greiðslur séu samkvæmt reglum.

Í verkefnisáætlun hópsins segir að greiðsluþátttaka skuli taka til allra íbúa sem eiga lögheimili á svæðum í minnst 270 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og/eða svæða þar sem aðrar sérstakar aðstæður kalla á slíka þátttöku svo sem eyja án vegasambands.

Greiðsluþátttaka mun takmarkast við ferðir sem farnar eru í einkaerindum og á eigin kostnað umsækjanda. Miðað skal við tiltekinn fjölda ferða á mann á ári og hámarkskostnað á ferð. Í leiðbeiningum til hópsins er gert ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins.

Greiðsluþátttakan tekur ekki til flugleggja sem ríkið niðurgreiðir með öðrum hætti á grundvelli þjónustuskyldu.

Framkvæmd greiðsluþátttökunnar skal vera í samræmi við skuldbindingar EES-samningsins. Áætlaður heildarkostnaður ríkisins fyrsta árið er áætlaður 200 milljónir kr.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, situr í starfshópnum fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðrir fulltrúar eru Sólveig J. Guðmundsdóttir frá Vegagerðinni, sem jafnframt er formaður, Árni Gunnarsson frá Air Iceland Connect, Friðrik Adolfsson frá Norlandair og Unnur Hermannsdóttir frá Flugfélaginu Erni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.