Innanlandsflug niðurgreitt síðla árs 2020
Niðurgreiðsla á innanlandsflugfargjöldum fyrir íbúa landsbyggðarinnar, hin svokallaða skoska leið, mun ekki hefjast fyrr en haustið 2020. Þrýst hafði verið á að byrjað yrði á niðurgreiðslunum strax um næstu áramót.„Við náum vonandi að koma skosku leiðinni í gang síðla árs 2020,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra þegar hann kynnti drög að endurskoðaðri samgönguáætlun til ársins 2034 á opnum fundi í Norræna húsinu í morgun.
Að undanförnu hefur verið þrýst á að hefja niðurgreiðsluna sem fyrst vegna fækkunar farþegar í innanlandsflugi og rekstrarerfiðleika flugfélaga. Hjá samgönguráðuneytinu fengust þær upplýsingar að ekki yrði hægt að byrja strax þar sem enn væri að vinna að útfærslu á greiðslunum og kerfisbreytingum í samráði við meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Mikilvægt væri þó að hefja niðurgreiðsluna á næsta ári.
Þurfa aðgang að þjónustunni í Reykjavík
Jóna Árni Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbúar, fagnaði því að stefnt væri að því að koma skosku leiðinni á en hún var í pallborði á fundinum í morgun.
„Að koma þessari leið á þýðir auknar líkur á að flugið sé notað í þeim tilgangi sem á að nota það, að samfélögin hafi meiri samskipti sín á milli og nýti þau gæði sem höfuðborgarsvæðið hefur upp á að bjóða.
Ráðherra sagði hér áðan að búið væri ákveða að hafa stjórnsýsluna miðlægt í Reykjavík sem þýðir að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að hafa aðgengi henni og öðrum sem hér hefur verið byggt upp. Það hefur skort því verðlagið á fluginu hefur verið of hátt fyrir hinn almenna notenda. Það eru fleiri lönd sem búa við sambærilegar aðstæður og við og því er gríðarlega mikilvægt að við kynnum okkur þær leiðir sem þar hafa verið farnar,“ sagði Jóna Árný.
Framkvæmdir á Vopnafirði 2023
Niðurgreiðslan á fluginu flokkast sem almenningssamgöngur. Sigurður Ingi sagði hugsað út í frekari tengingu þess við ferðir strætisvagna. Annars vegar verði strætisvagn milli Keflavíkurflugvallar og flugstöðvar í Reykjavík, hins vegar bíði strætisvagn farþega þegar þeir komi úr flugi á Egilsstöðum og Akureyri. Hann tók fram að enn ætti eftir að vinna nánari útfærslu á þeim ferðum.
Drög ráðherrans liggja nú fyrir í samráðsgátt stjórnvalda. Þau verða opin þar í tvær vikur en Sigurður Ingi sagðist ætla að leggja áætlunina fyrir Alþingi þann 15. nóvember. Ýmislegt fleira er að finna í áætluninni um málefni flugs. Árið 2023 eru ætlaðar 60 milljónir í viðhald flugbrautar á Vopnafirði og 15 milljónir í byggingar og búnað á Egilsstaðaflugvelli árið 2022. Þar verða sett upp ný aðflugsljós á næsta ári.
Ekki er að sjá breytingu á stuðningi við innanlandsflug til Vopnafjarðar né ferju til Mjóafjarðar í fimm ára áætluninni, sem gildir til 2024.
Áfram unnið að millilandaflugi til Egilsstaða
Í samgönguáætlun til ársins 2034 er því lýst að stefna stjórnvalda sé að dreifa ferðamönnum um landið og efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni með að auka millilandaflug um Akureyri eða Egilsstaði. Slíkt flug höfði fyrst og fremst til þeirra ferðamanna sem áður hafi heimsótt landið. Rannsóknir hafi sýnt að 60% erlendra farþega til Akureyrar hafi áður komið til landsins en í Keflavík er hlutfallið 18%. Unnið sé að verkefninu, meðal annars með flugþróunarsjóði. Þá aukist möguleikar millilandaflugs á þessa staði með bættri afþreyingu og meira hótelrými fyrir ferðamenn á svæðunum í kring. Þá er komið inn á aukna kynningu á innanlandsflugi.
Til stendur að skoða upptöku „hóflegs varaflugvallargjalds“ til að byggja upp varaflugvelli fyrir Keflavík. Ný flugstefna er hluti af áætluninni, þar er staðfest að Egilsstaðaflugvöllur verði fyrstu varaflugvöllur og uppbygging þar sett í forgang. Áfram verður skoðað hvort fýsilegt sé að byggja upp nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni, þótt ljóst sé að Keflavíkurvöllur verði megingátt millilandaflugs í fyrirsjáanlegri framtíð.