Innheimta milljónir í vangoldin laun í hverri viku

Starfsmenn AFLs Starfsgreinafélags innheimta milljónir í vangoldin laun fyrir félagsmenn sína í hverri viku. Dæmi eru um að atvinnurekendur notist við alþjóðlegar greiðslugáttir til að sleppa framhjá íslensku eftirliti.

Frá þessu er greint í fréttabréfi verkalýðsfélagsins sem fylgdi Austurglugganum í síðustu viku.

Þar segir frá því að félagið hafi vikuna á undan innheimt á aðra milljón króna í vangoldin laun fyrir félagsmenn. Þetta hafi verið venjuleg vika og engin stórmál í gangi. Á ársgrundvelli skipti málum tugum.

Í greininni segir að langflestir þeirra launagreiðenda sem félagsmenn AFLs eru á mála hjá komi aldrei fyrir í innheimtumálum, því sé varla svo erfitt að reikna rétt laun. Hins vegar séu dæmi um að mál frá sömu fyrirtækjunum komi aftur og aftur til kasta verkalýðsfélagsins vegna vanefnda á launasamningum eða hreinlega vísvitandi brota á kjarasamningum. Í slíkum tilfellum sé ekki hægt að tala um vangoldin laun heldur hreinlega launaþjófnað.

Fram kemur að algengustu skýringar þeirra sem brjóti á launafólki sé þekkingarleysi á kjarasamningum. Skýringarnar standist sjaldnast skoðun, yfirleitt sé um að ræða óreiðu á öllum skjölum, launaseðlar séu lélegir ef þeir eru yfir höfuð afhentir, engin vaktaplön né ráðningarsamningar.

Þá hafi starfsmenn AFLs séð vísvitandi tilraunir til að halda launafólki algerlega einangruðu og utan opinberra skráa, meðal annars með launagreiðslum beint inn á erlenda reikninga eða í gegnum greiðslukerfið Paypal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.