Instavolt setur upp rafbílahleðslustöðvar á átta stöðum á Austurlandi

Fyrirtækið Instavolt áformar að koma upp hátt í 20 hleðslustöðvum fyrir rafbíla á Austfjörðum á næstu mánuðum. Fyrstu stöðvarnar eru þegar komnar í gagnið.

Instavolt samdi í sumar um uppsetningu stöðva í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Byrjað verður á Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Að auki eru komnar upp tvær stöðvar við Hengifoss í Fljótsdal og neðan við ráðhúsið á Vopnafirði. Einnig er verið að skoða möguleikann á fjórum stöðvum á Egilsstöðum.

Steinþór Jón Gunnarsson, rekstrarstjóri Instavolt á Íslandi, segir þarft að ríkið ýti undir rafbílavæðingu, annað hvort með reglum á borð við að bílaleigur þurfi að hafa rafbíla sem ákveðið hlutfall nýskráðra bíla, eða skattaívilnunum. Þá sjái einkaaðilar hag í að byggja upp innviði eins og hleðslustöðvarnar.

Sveitarfélög þurfi að leggja sitt af mörkum með að ákveða á hvaða lóðum rafhleðslustöðvar eigi að verða.

Instavolt er breskt, en stjórnarformaður þess er líka stjórnarformaður HS Orku. Hann sá tækifæri í að byggja upp innviði fyrir rafbíla hérlendis. Fyrirtækið áformar að setja upp um 300 stöðvar hérlendis og vera tilbúið með um 60 þeirra um áramótin.

Stöðvarnar á Austurlandi eru liður í að loka hringnum. Til framtíðar sér fyrirtækið fram á að vera með tæknimann í vinnu á svæðinu til að tryggja sem best viðbragð við bilunum en í dag er stöðvunum sinnt af tæknimanni þess á Akureyri.

Steinþór og Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, undirrituðu samninga í sumar um stöðvarnar við Hengifoss.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar