IPN veiran hættulaus

IPN veira sem greindist í fiskeldi Laxa á Reyðarfirði í nóvember virðist með öllu meinlaus. Þetta hafa frekari greiningar á vegum Matvælastofnunar leitt í ljós.

Í tilkynningu MAST kemur fram að veiran hafi fyrst verið grein í rannsóknarstöð á Keldum en síðan raðgreind á rannsóknastofu Evrópusambandsins í veirusjúkdómum. Niðurstaða raðgreiningarinnar er að veiran valdi ekki sjúkdómi.

„Þetta er í takt við það sem okkur grunaði. Það voru engin einkenni á fiskinum og hann hefur verið á góðu róli,“ segir Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST.

IPN veira hefur áður fundist á Íslandi, í lúðuseiðum í Eyjafirði fyrir 20 árum. Gísli segir þá veiru hafa komið úr lífríkinu, líkt og veiran í Reyðarfirði.

„Eftir því sem laxeldi í sjó verður umfangsmeira og við förum að rannsaka meira með strangari vöktun er líklegt að í ljós komi saklausar veirugerðir úr umhverfinu sem við vissum ekki um. Til þessa höfum við ekki stundað miklar sýnatökur nema sýnt sé að eitthvað sé í gangi,“ segir Gísli.

Hann segir að veiran sem greindist í Reyðarfirði hafi engin áhrif á hið villta lífríki og villtum laxi sé ekki hætta búin af henni.

Önnur afbrigði IPN veirunnar geta hins vegar valdið sjúkdómum, einkum í ferskvatni. „Við höfum oft velt fyrir okkur hvers vegna hér við land hafi aldrei greinst IPN veira því hún finnst um nær allan heim. Það góða er að við höfum ekki harðari gerðir veirunnar sem finnast í ferskvatni.“

Dreifingarbann var sett á starfsstöð Laxa að Bjargi í Reyðarfirði þegar veiran fannst í nóvember. Ekki hefur verið ákveðið hvort það verði afnumið því það breyti í raun litlu. Fiskurinn í kvíunum eigi ekki að vera á ferðinni nema þegar hann verði færður til slátrunar næsta sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar