Íslandspóstur opnar á nýjum stað á Egilsstöðum

Íslandspóstur opnaði í gær nýja afgreiðslu sína á Egilsstöðum. Pósturinn er nú kominn í Kaupvang 6 þar sem áður var byggingavörudeild Kaupfélags Héraðsbúa. Svæðisstjórinn segir gamla húsið ekki hafa hentað starfseminni lengur.

„Okkur líst mjög vel á þetta húsnæði. Þetta er flott staðsetning, þess vegna erum við hér,“ segir Árni Kristinsson, svæðisstjóri Íslandspósts á Austurlandi.

Frá árinu 1972 hefur afgreiðslan verið að Fagradalsbraut 9 en Árni segir að þörf hafi verið á nýju húsnæði í takt við breytta tíma.

„Þá var komið með 10-15 póstpoka í kerru aftan í einhverum bíl. Í dag kemur pósturinn í Egilsstaði í risagrindum.

Hér er betra aðgengi fyrir bæði okkur og viðskiptavini. Við erum ekki lengur með stóru bílana á sama plani og viðskiptavinina okkar. Þá var það þannig á mesta annatímanum að maður þurfti að fara út um vöruafgreiðsluna og inn um aðalinnganginn ef maður ætlaði að tala við einhvern í hinum endanum.

Þetta hús er reyndar minna en hér nýtist hver einasti fermetri.“

Hjá Íslandspósti starfa ellefu starfsmenn í misháu starfshlutfalli auk fjögurra landpósta.

Árni, annar frá hægri, ásamt hluta starfsfólks Íslandspósts á Egilsstöðum í nýja húsnæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.