Íslandspóstur þjarmar að héraðsfréttamiðlum

Íslandspóstur ohf. hefur tilkynnt um breytingar á þjónustu sinni sem koma sérstaklega niður á héraðsfréttamiðlum.

Fulltrúar Íslandspósts hafa í dag og í gær tilkynnt útgefendum héraðsfréttablaða að flokkurinn „blöð og tímarit“ í gjaldskrá falli niður. Í stað þess verða blöð færð inn í almenna gjaldskrá með magnafslætti, sem ræðst af því hversu mörg blöð eru sent út hverju sinni en ekki hve oft þjónustan er nýtt.

Þess vegna hefur breytingin mismunandi áhrif á miðla. Skessuhorn á Vesturlandi greinir frá því að hækkunin nemi 26-28% eftir miðlum. Í tilfelli Austurgluggans, sem gefinn er út af Útgáfufélagi Austurlands líkt og Austurfrétt, nemur hækkunin 28,5%. Stjórnendur blaðsins hafa í dag og í gær rætt möguleg viðbrögð við hækkuninni.

Í gær var tilkynnt um að Íslandspóstur myndi hætta dreifingu ónafnmerkt fjölpóst á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Reykjanesi og Selfossi. Sú breyting kemur illa við þá héraðsfréttamiðla sem þar hafa starfað. Breytingarnar taka gildi 1. maí.

Hins vegar ætlar Íslandspóstur að halda áfram að dreif ónafnmerktum fjölpósti á öðrum landssvæðum. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru ekki boðaðar breytingar á þeirri gjaldskrá sem þýðir að bilið breikkar enn frekar milli þeirra blaða og bæklinga sem dreift er í fjöldasendingum og síðan blaða á borð við Austurglugga sem aðeins er dreift til áskrifenda.

Í tilkynningu stofnunarinnar er því haldið fram að sú breyting að hætta dreifingu fjölpósts á þéttbýlustu svæði landsins, þar sem samkeppni er til staðar, spari 200 milljónir króna. Samhliða breytingunum var rúmlega 30 starfsmönnum sagt upp.

Íslandspóstur ohf. er í eigu íslenska ríkisins. Viðvarandi taprekstur hefur verið á starfsemi ÍP á liðnum árum, en fyrrgreindar breytingar á þjónustu og verðlagningu eru liður í að reyna að rétta reksturinn af.

Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla, þar með talið héraðsfréttamiðla, gegn því að þeir komi út á prenti minnst 48 sinnum á ári eða séu uppfærðir daglega á vef. Frumvarpið er þessa dagana til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar