Ívar Ingimars: Ég vil búa í samfélagi sem ungt fólk vill búa í og flytja til

Ívar IngimarssonStöðfirðingurinn Ívar Ingimarsson flutti heim fyrir mánuði eftir þrettán ára feril sem knattspyrnumaður í Englandi og er sestur að á Egilsstöðum. Ívar lætur sig austfirsk samfélagsmál varða og tekur virkan þátt í umræðunni. Þá vinnur hann að framgangi hugmyndabankans Ideas-Shared.com.

„Ég er að austan og ég vil búa í samfélagi sem ungt fólk vill búa í og flytja til. Ég ólst upp á heimili þar sem svona mál voru rædd, mikið hlustað á fréttir og þannig varð kannski þessi samfélagsáhugi til. Varðandi fótboltann vildi það bara þannig til að ég hafði líka gaman af að spila knattspyrnu. En svo hef ég líka ekki verið í þessari hefðbundnu níu til fimm vinnu undanfarin ár og haft nægan tíma til að hugsa og velta hlutunum fyrir mér,“ segir Ívar í samtali við nýjasta tölublað Austurgluggans.

Tilgangur vefsins sem Ívar kom af stað er að tengja fólk með hugmyndir, þekkingu og reynslu til að vinna saman að góðum verkefnum.

„Það er fullt af hugmyndaríku og skapandi fólki á netinu sem í vissum skilningi er bara við hliðina á manni – eins og fólk á fjölmennri göngugötu -  samt veit maður ekki hvað það er að hugsa eða gera. Málið er bara að búa til vettvang þar sem þetta fólk getur hist, stoppað og unnið saman. Maður getur lært eitthvað af öllum og enginn einn veit allt. Þaðan af síður veit maður hvaðan bestu hugmyndirnar koma. Það gætu komið hugmyndir frá Kína sem myndu gagnast Austfirðinum mjög vel og til þess er ég nú meðal annars að búa til þessa heimasíðu.“

Of fámenn til að standa í hrepparíg

Ívar segist vilja vinna að því að menn starfi saman þvert á hreppamörk. Hann telur að hinn gamalkunni austfirski hrepparígur sé að minnka, menn hafi einfaldlega ekki efni á honum.

„Við erum stundum alltof upptekin af því hvar fólk býr. Við Austfirðingar erum um það bil tólf þúsund manns og það telst ekki vera fjölmenni samkvæmt neinum mælikvarða. Við höfum hreinlega ekki efni á slíkum hrepparíg því okkur veitir ekki af þessum tólf þúsundum til að vinna saman að verkefnum og koma fram sem ein heild. Ég trúi því reyndar að þetta sé að minnka því allir sjá að þetta skilar engu. Þetta hjálpar ekki þorpunum okkar og þetta hjálpar ekki fjórðungnum.“

Erum við á eftir í ferðaþjónustu?
 
Ívar hefur mestan áhuga á uppbyggingu ferðamannaþjónustu, enda barnabarn Steina-Petru sem byggði upp vinsælasta safn Austurlands. Hann óttast að aðrir landshlutar séu komnir langt fram úr Austfirðingum í markaðssetningu.

„Fyrir vestan eru menn að fá tugir þúsunda ferðamanna til sín í sjóstangveiði og Ísafjarðarhöfn er að fá árlega til sína tæplega fjörutíu þúsund manns á skemmtiferðarskipum. Fyrir norðan fá menn 100.000 manns af skemmtiferðaskipum og þar eru menn að vinna að því að fá beint flug frá Keflavík til Akureyrar. Sennilega eru bæði Vestfirðingar og Norðlendingar komnir langt á undan okkur og ég hefði viljað sjá okkur horfa í þessa átt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.