Jafnt á mununum í þjóðarpúlsi Gallup í október
Af litlu munar milli framboða flokka til Alþingis í Norðausturkjördæmi, miðað við þjóðarpúls Gallup í október. Samfylkingin mælist þar stærst en hvert atkvæði skiptir máli í baráttunni um þingsæti.Austurfrétt hefur til þessa birt niðurbrot úr könnunum Maskínu en hefur nú í fyrsta sinn, í gegnum samstarf við RÚV, fengið aðgengi að niðurbroti þjóðarpúlsins.
Úrtakið hjá Gallup er stórt, 492 svör í kjördæminu fyrir mánuðinn allan, þar af rúmlega 300 úr seinni helmingi mánaðarins en á þeim tíma sprakk ríkisstjórnin, boðað var til þingkosninga og framboðslistar birtust. Niðurstöðurnar eru brotnar niður bæði fyrir mánuðinn í heild sinni og þennan seinni helming.
Munurinn á Gallup og Maskínu almennt er að Samfylking mælist stærst hjá Gallup en Miðflokkurinn þar heldur veikari. Kannanir Maskínu byggja á um helmingi færri svörum heldur en þjóðarpúlsinn í heild.
Þá koma í ljós nokkrar breytingar á fylgi eftir því hvort er um er að ræða mánuðinn í heild eða bara seinni hlutann. Þegar seinni hlutinn er skoðaður kemur í ljós fylgisaukning Sjálfstæðisflokks, trúlega á kostnað Miðflokks. Þriðji þingmaður Miðflokks verður við það fjarlægari og möguleikarnir aukast á öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Á sama tíma minnkar fylgi Samfylkingarinnar meðan fylgi Sósíalistaflokksins eykst sem þýðir að Samfylkingin missir sinn þriðja þingmann, sem hefði verið kjördæmakjörinn, yfir til Sósíalistaflokksins. Samfylkingin á þó enn næsta kjördæmakjörna þingmann.
Rétt er að muna að kjördæmakjörnu þingmennirnir eru 9. Tíundi þingmaður kjördæmisins er jöfnunarþingmaður. Tölur annars staðar áhrif á hann í kosningum og því illmögulegt að segja hvar hann endar. Hann er hér þó sýndur sem þriðji þingmaður Samfylkingar. Eins er vert að muna að fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hið sama.