Jakob Frímann hættir: Ólík sýn á hreinskipti og traust

Jakob Frímann Magnússon verður ekki oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar 30. nóvember. Þetta var staðfest í gærkvöldi.


RÚV greindi fyrst frá en Inga Sæland, formaður flokksins, staðfesti þetta í samtali við fjölmiðla. Vísir birti yfirlýsingu frá Jakobi Frímann í gærkvöldi þar sem hann segist aðskilnaðinn eiga sér aðdraganda þar sem við sögu komi meðal annars „ólík sýn á leikreglur hreinskiptni og trausts.“

Hann segist skilja stoltur við flokkinn enda sýni nýlegar skoðanakannanir að flokkurinn standi hvergi betur að vígi en á Norðurlandi eystra. Landssvæðið myndar Norðausturkjördæmi ásamt Austurlandi.

Austurfrétt hefur undanfarna viku ítrekað reynt að ná tali af Jakobi eins og öðrum þingmönnum kjördæmisins til að spyrja þá út í mögulegt endurkjör og stöðuna í stjórnmálunum. Jakob stóð ekki við vilyrði sem hann gaf um að hringja til baka í þau fáu skipti sem hann þó svaraði símanum.

Hann sendi yfirlýsingu sína í gærkvöldi ekki á héraðsfréttamiðla svæðisins: Austurfrétt, Vikublaðið og Akureyri.net. Tilraunir annarra miðla en Austurfréttar til að ná tali af honum hafa heldur ekki borið árangur.

Það með hefur verið staðfest að fullu að helmingur þingmanna Norðausturkjördæmis hættir. Það gera, auk Jakobs Frímanns, Líneik Anna Sævarsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdótir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir. Þau sem halda áfram eru: Njáll Trausti Friðbertsson, Logi Einarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Logi Einarsson.

Af vettvangi stjórnmálanna í dag er annars það að frétta að netprófkjöri Pírata lýkur klukkan 16:00. Níu gáfu kost á sér í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar