Jakob Frímann Magnússon oddviti Flokks fólksins

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Austurfréttar mun Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, leiða lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi sem kynntur verður á næstunni.


Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jakob Frímann kemur nálægt stjórnmálum en hann var virkur innan Alþýðuflokksins fyrir um þremur áratugum síðan. Síðar varð hann stofnmeðlimur í Samfylkingunni og tók þátt í prófkjöri fyrir Alþingiskosningarnar árið 2003 og 2007 en náði í hvorugt skipti þeim árangri sem hann ætlaði sér. Hann sat á þingi sem varaþingmaður Samfylkingarinnar í desember árið 2004. Hann yfirgaf Samfylkinguna fyrir Alþingiskosningarnar árið 2007 og skipaði oddvitasæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Íslandshreyfinguna sem stofnuð var af Ómari Ragnarssyni.


Feril Jakobs Frímanns fyrir utan stjórnmálin þekkja flestir en hann hefur verið meðal þekktustu tónlistarmanna þjóðarinnar síðustu hálfa öld. Fyrir utan tónlistina hefur Jakob fengist við eitt og annað og má þar nefna að hann leikstýrði kvikmyndinni Hvítir mávar, starfaði sem menningarfulltrúi sendiráðs Íslands í London snemma á tíunda áratugnum og var framkvæmdastjóri miðborgarmála í Reykjavík en hann var gjarnan titlaður miðborgarstjóri í þeim störfum.


Jakob Frímann lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006. Hann var formaður Félags tónskálda og textahöfunda og varaformaður STEF. Jakob hefur þá beitt sér fyrir umhverfismálum og var meðal stofnenda Græna hersins og framkvæmdastjóri Umhverfisvina um tíma.

 

Undanfarin ár hefur Jakob Frímann unnið að því að koma upp 120 manna lúxushóteli ásamt 20 minni húsum í Lóni nærri Höfn í Hornafirði.

 

Ekki náðist í Jakob Frímann í morgun og þá vildi Flokkur fólksins hvorki játa né neita hvort Jakob yrði oddviti en vísaði í að það kæmi í ljós á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.