Janne fékk heillaóskir frá Hillary Clinton

janne_stevieverdlaun_web.jpg
Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, fékk nýverið heillaóskir frá Hillary Clinton, þá utanríkisráðherra Bandaríkjanna, auk Stevie-gullverðlaunanna sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri. Sérstaklega er minnst á virka þátttöku í austfirsku samfélagi í bréfi Clinton.

Það var sendiherrann Luis E. Arrega sem afhenti verðlaunin og heillaóskaskeytið við hátíðlega athöfn í sendiráðinu. Stevie-verðlaunin eru alþjóðleg verðlaun sem veitt eru árlega þeim sem skara fram úr í stjórnun stofnana og fyrirtækja um allan heim. Janne var útnefnd forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð.

„Ég fagna einstakri viðleitni þinni við að byggja upp álver Fjarðaáls og gera það að einu fullkomnasta álveri heims (state-of-the-art), þar sem uppfylltar eru ýtrustu kröfur um öryggi starfsmanna og umhverfis. Ég er þér einnig þakklát fyrir framúrskarandi virka þátttöku í samfélaginu á Austurlandi með öflugum stuðningi við menningarstarf og viðleitni til að stuðla að umbótum í menntun og umhverfi. 

Viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna er mikilvægur grundvöllur tvíhliða samskipta landanna. Bandaríkin meta mjög mikils störf þín á Íslandi, sem endurspegla háleitustu hugsjónir í bandarískum atvinnurekstri: sjálfboðaliðastörf, samfélagslega ábyrgð og samfélagsþróun. Vinsamlegast athugaðu að við fylgjumst spennt með störfum þínum í framtíðinni, og sendi ég þér mínar bestu óskir um áframhaldandi velgengni,“ segir í skeytinu frá Hillary.

Í tilkynningu segir að Janne hljóti verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álversins á þeim sex árum sem hún hafi starfað þar. „Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi, en hún býr á Eskifirði.“

Til móttökunnar í bandaríska sendiráðinu var m.a. boðið fulltrúum úr íslensku atvinnulífi. Á myndinni eru f.v. Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Gylfi Sigfússon, varaformaður Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins (AMÍS) og Luis E. Arreaga sendiherra. Mynd: Alcoa Fjarðaál

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.