Jarðfræðingur telur að vandasamt geti reynst að grafa göng undir Fjarðarheiði

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, óttast að aðstæður til jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði geti um margt verið líkar aðstæðum í Vaðlaheiði. Það breyti því ekki að gerlegt sé að gera göng þar en geti kostað lengri tíma og fé.

Þetta kom fram í máli Ágústs sem var meðal frummælenda á fundi um samgöngumál sem Miðflokkurinn í Fjarðabyggð stóð fyrir á Eskifirði á mánudagskvöld. Ágúst hefur komið að rannsóknum og eftirliti vegna fjölda jarðganga á Íslandi í um 40 ár, þar með Fáskrúðsfjarðarganga, Vaðlaheiðarganga, á Fljótsdalsheiði og undir Fjarðarheiði.

Ágúst var meðal þeirra sem vann að jarðfræðirannsóknum fyrir gerð Vaðlaheiðarganga. Hann sagði að vitað hefði verið af jarðhitasvæði á leiðinni. Það hefði hins vegar reynst mun stærra en reiknað var með og bæði tafði og jók kostnað við gagnagerðina verulega.

„Það reyndist nokkrir kílómetrar en ekki nokkur hundruð metrar. Þar komu upp erfiðustu aðstæður sem við höfum kynnst í jarðgangagerð,“ sagði Ágúst.

Óttast vatnsrennsli

Hann sagði að aðstæður undir Fjarðarheiði„ekki betri“ þótt þar væri ekki hætta á jarðhitasvæði. „Á Fjarðarheiði er uppistöðulón og það gæti orðið flókið deilumál ef það tekur að rýrna. Það verður erfitt að koma í veg fyrir að vatn dragist úr berginu.

Í tveimur borholum á Fjarðarheiði lak allt sem lekið gat. Það þýðir að þar undir eru opnir kanalar fyrir vatn, líkt og í Vaðlaheiði. Þótt ekki sé jarðhiti í Fjarðarheiði má búast við setlagasyrpum sem krefjast talsverðra styrkinga. Þess vegna tel ég að hliðstæðar áskoranir verði við að grafa þar í gegn.“

Tafir kosta fé

Gert er ráð fyrir að göng undir Fjarðarheiði yrðu 13,5 kílómetrar. Ágúst sagði áskoranir fylgja svo löngum göngum. „Það er seinlegra að takast á við áskoranir í löngum göngum auk þess sem ferðalög út og inn lengjast.“

Eins hefur verið gert ráð fyrir að Fjarðarheiðargöng kosti 33,5 milljarða og sjö ár taki að gera þau. Ágúst sagði þann tíma miðast við bestu aðstæður, trúlegra væri að það tæki átta ár. Hann sagðist ekki rengja kostnaðartölur sem birtist í skýrslu starfshóps samgönguráðherra frá því í fyrra en benti á að erfiðleikar kostuðu peningar. Alltaf ætti þó að vera hægt að komast í mark.

„Það eru ýmsir annmarkar á Fjarðarheiðinni. Þá má leysa með fé. Ég held að þau séu tæknilega ekki auðveldari en Vaðlaheiðargöngin og óttast að á leiðinni komi óvæntur glaðningur. Ég sé Fjarðarheiðargöng ekki verða að veruleika fyrr en 2030.“

Góðar aðstæður milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar

Ágúst ræddi einnig aðstæður aðra jarðgangakosti á Austurlandi, en lögð hefur verið áhersla á það samhliða Fjarðarheiðargöngum að grafið verði úr Seyðisfirði til Mjóafjarðar og þaðan áfram til Norðfjarðar. Hann taldi aðstæður þar almennt ágætar. Milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar væru trúlega svipaðar aðstæður og í Dýrafjarðargöngum, sem gengið hafa mjög vel og þau tæki þrjú ár að grafa. Aðstæður milli Mjóafjarðar og Fannardals í Norðfirði væru trúlega áþekkar aðstæðum í Norðfjarðargöngum, sem á köflum voru erfiðar vegna lausra setlaga. Þess vegna myndi taka fjögur ár að grafa þau.

Í skýrslu starfshópsins frá í fyrra er nefndur sá kostur að gera göng milli Mjóafjarðar og Slenjudals/Eyvindarárdals. Hópurinn telur þá leið vera tíu milljörðum ódýrari í heildina, með göngum frá Norðfirði til Seyðisfjarðar, heldur en undir Fjarðarheiði og þaðan áfram til Norðfjarðar. Ágúst sagðist telja að þau göng, 9 km löng, tæki um 4,5 ár að grafa. Þar væru trúlega svipaðar aðstæður og í Norðfjarðargöngum.

Bæði byrjað með meiri og minni rannsóknir

Ágúst var einnig spurður út í hvernig hann mæti stöðu rannsókna á gangastæðinu undir Fjarðarheiði. „60-70% þeirra rannsókna sem þarf er lokið. Helst eru eftir rannsóknir við gangamuna og vegi, það er ekki mikið meira eftir í berginu. Það hefur verið farið af stað í gangagröft eftir meiri eða minni rannsóknir en stundum þarf bara að setja punktinn við þær.“

Hann kvaðst ekki telja að miklar rannsóknir þyrfti fyrir hin göngin. „Það þarf ekki tímafrekan undirbúning fyrir göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar. Milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar þyrfti einhverjar aukarannsóknir en ekki miklar. Það þyrfti ár í rannsóknir undir Mjóafjarðarheiði en aðgengi þar er mjög þægilegt.“

Ágúst vék stuttlega máli sínu að samfélagslegum áhrifum mismunandi jarðgangakosta. Hann sagði það sína persónulegu skoðun að fyrir Austurland í heild væri ekki verri kostur að fara undir Mjóafjarðarheiði en Fjarðarheiði. „Ég vona að menn fari í þá lausn sem verði mest lyftistöng fyrir Austurland. Þótt mönnum þyki vænt um sína heimabyggð þarf líka að horfa í hvað hlutirnir kosta.“

Þrætt milli setlaga í Fáskrúðsfjarðargöngum

Hann bæði ræddi og rifjaði upp aðra jarðgangakosti á Austurlandi. Þannig sagði hann Fáskrúðsfjarðargöng hafa tekið skamman tíma, frá því byrjað var að ræða um þau þar til þau voru tilbúin. Þar hefði gengið prýðilega að grafa göngin þótt þræða hefði þurft leið milli setlaga. „Verktakinn hræddi okkur um tíma. Við boruðum bæði upp og niður fyrir okkur til að vera vissir um að vera á réttum stað.“

Hann lýsti einnig efasemdum um hugmyndir sem uppi voru fyrir rúmum áratug um að fá borana sem gerðu aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar til að borga göng á Mið-Austurlandi. Slíkt hefði verið óraunhæft, annars vegar vegna þess að kringlótt þversnið þeirra hentaði ekki fyrir vegi, hins vegar væru borarnir aðeins hagkvæmir í stórverkefni sem ekki hefði verið hægt að telja ríkið á.

Hann var einnig spurður út í Lónsheiðargöng, sem kæmu í stað vegar um Hvalnes- og Þvottárskriður, Þau yrðu um 6-6,5 km löng og komið út í um 200 metra hæð. Ágúst rifjaði einnig upp að skoðuð hefði verið gangaleið milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar, sem talin var torfarin en á móti hefðu virst nokkuð góðar aðstæður undir Berufirði. Þau göng væru hins vegar ekki á dagskrá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.