Jarðgöng og húsnæðismál efst á forgangslistanum

Aðalheiður Borgþórsdóttir var í gær ráðin nýr bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar. Aðalheiður þekkir vel hjá bænum þar sem hún var ferða- og menningarfulltrúi í 17 ár. Hún segist hlakka til við að vinna að eflingu staðarins.

„Ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni. Ég hef ótrúlega fínt fólk í kringum mig, bæði kjörna fulltrúa og starfsfólki, og það skiptir miklu máli,“ segir Aðalheiður.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar gekk frá ráðningu hennar í gær. Tólf umsóknir bárust um starfið en þrír drógu umsóknir sínar til baka.

Aðalheiður ætti að þekkja vel til hjá kaupstaðnum. Hún var ferða- og menningarfulltrúi á árunum 1998-2015 og hefur starfað á sviði fjármála- ferða og menningarmála frá árinu 2015 og sem markaðsstjóri Seyðisfjarðarhafnar 2007. „Það er samt margt nýtt í starfinu fyrir mér og ég verð fyrstu mánuðina að læra á það,“ segir Aðalheiður.

Hún kemur til starfa 1. október. „Jarðgöngin og húsnæðismálin eru ofarlega á verkefnalistanum. Ég er spennt fyrir verkefnum við að fjölga íbúum og efla byggðina með að byggja upp atvinnu. Hingað hefur að undanförnu komið ungt fólk til að skapa sér störf og það þarf að hlúa að því.“

Þekktust er Aðalheiður trúlega fyrir starf sitt við LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi. Hún var framkvæmdastjóri frá því hátíðin var haldin fyrst árið 2000 en er nú fjármálastjóri og ráðgjafi. Aðalheiður, sem er með diplómu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum, hefur síðustu misseri einnig starfað við móttöku skemmtiferðaskipa á Seyðisfirði.

Vilhjálmur Jónsson, sem verið hefur bæjarstjóri undanfarin sjö ár, gegnir starfinu þar til Aðalheiður tekur við. Vilhjálmur, sem er oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórninni, situr ekki sem bæjarfulltrúi á meðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.