Jens Garðar: Þetta er ekki neikvætt mál

jens_gardar_helgason_mai12.jpg
Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir nýtt skipulag almenningssamgangna í Fjarðabyggð stórkostleg framfaramál fyrir íbúana. Loksins sé búið að koma í höfn kerfi sem virki eftir áralanga baráttu. Ekki sé raunhæft að sinni að hafa sveitarfélagið eitt gjaldsvæði.

„Þetta er ekki neikvætt mál. Þetta er stórkostlegur áfangi og stórkostlegt framfaramál fyrir íbúa. Ég hef verið í bæjarstjórn í sjö ár og séð hvert verkefnið í almenningssamgöngum á fætur öðru verða gjaldþrota,“ sagði Jens Garðar á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag.

„Ef menn hafa séð hvernig við höfum orðið skipreka með skólabörnin og íþróttaiðkendurna í gegnum árin þá myndu menn ekki tala digurbarkalega um að þetta sé svartur dagur.“

Eitt gjald fyrir alla?

Fulltrúar Fjarðalistans, sem er í minnihluta í bæjarstjórn, hafa gagnrýnt harðlega að ekki standi til að gera sveitarfélagið að einu gjaldsvæði. Gjaldskráin er flokkuð niður eftir fjarlægð á milli staða. Eldri borgarar, fatlaðir og hreyfihamlaðir borga eitt gjald óháð fjárlægð, eitt verð er fyrir önnina hjá framhaldsskólanemum og svo eru fleiri tilboð, sérstaklega fyrir stórnotendur.

Fulltrúar meirihlutans segja að til að ná fram flötu gjaldi fyrir alla þurfi að færa kostnaðinn af stórnotendum yfir á þá sem fara styttra. Eskfirðingar og Fáskrúðsfirðingar þyrfti til dæmis að fara að niðurgreiða ferðir annarra.

Vantar 27 milljónir til að flatt gjald gangi upp

Jens Garðar benti á að Fjarðabyggð greiddi þegar 15 milljónir með verkefninu. „Við erum að greiða þetta stórkostlega niður. Það er langt frá því að íbúarnir borgi raunkostnað. Kostnaðurinn er 9 kr/km, tíundi hluti þess sem kostar að ferðast með einkabíl. Það eru lífsgæði.“

Hann ítrekaði að málið snérist um ábyrga fjármálastjórn sveitarfélagsins. Hann spurði að auki hvar ætti að fá þær 27 milljónir króna sem þyrfti aukalega til að hugmyndir um eitt gjald fyrir alla gengu upp.“

Óþolinmæði sem ekki hefur sést áður

Bæjarstjórinn, Páll Björgvin Guðmundsson, hvatti menn til samstöðu um þann árangur sem náðst hefði. „Það var bullandi misnotkun fyrir því þetta kerfi var ekki til og það gátu ekki allir notað almenningssamgöngurnar. Þetta er ekki fullskapað kerfi en við erum á ákveðinni leið.“

Hann hafði áhyggjur af þeim átökum sem virtust í bæjarstjórninni í málinu. „Það er óþolinmæði í gangi sem ekki hefur verið áður þegar við höfum verið að leita lausna.“

Skoðað við gerð næstu fjárhagsáætlunar

Meirihlutinn samþykkti tillögu Guðmundar Þorgrímssonar, Framsóknarflokki, um að við gerð næstu fjárhagsáætlunar yrði framvinda og þróun á almenningssamgöngunum tekin til sérstakrar skoðunar. Þar yrði leitast við að laga þá annmarka sem upp kunna að koma. Fulltrúar Fjarðalistans sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Guðmundur ítrekaði þá sýn sína við umræðurnar að „ein ferð“ ætti að vera „eitt verð.“ Þá sagði félagi Jens Garðars úr hópi sjálfstæðismanna að hann liti svo á að það tæki 3-5 ár að ná raunhæfum framtíðaráætlunum um almenningssamgöngur á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar