Jens Garðar oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Jens Garðar Helgason var í dag kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Valið var milli hans og Njáls Trausta Friðbertssonar, oddvita í kosningunum 2021, á kjördæmisþingi í Mývatnssveit í dag.

Jens Garðar hlaut 100 atkvæði eða 59,5% í fyrsta sætið en Njáll Trausti 68 eða 40,5%.

Valið er í fimm efstu sætin á þinginu í dag. Kosið er um eitt sæti í einu. Von er á úrslitum úr næsta sæti eftir um hálftíma. Njáll Trausti hefur staðfest framboð sitt í það.

Fyrir þingið höfðu Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður, Berglind Harpa Svavarsdóttir, varaþingmaður og Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, gefið kost á sér í það sæti.

Jens Garðar er 47 ára gamall, fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1996, stundaði nám við viðskiptafræði í Háskóla Íslands frá 1997 til 2000 og hefur MBA gráðu frá Norwegian School of Economics. Jens Garðar er búsettur á Eskifirði og starfar sem aðstoðarframkvæmdastjóri fiskeldisfélagsins Kaldvíkur.

Jens Garðar hefur lengi starfað í forystu sjávarútvegsins og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sveitarstjórnarstigi. Hann var formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2014 – 2020, varaformaður Samtaka atvinnulífsins 2017- 2020 og formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð tvö kjörtímabil, 2010-2018.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar