Jökuldælingar sópuðu til sín landgræðsluverðlaununum
Ábúendur á tveimur bæjum á Jökuldal fengu í síðustu viku landgræðsluverðlaunin 2012. Bæði hafa þeir grætt upp eigin jarðir en einnig leitt landgræðslustarf í dalnum.
Það voru Arnór Benediktsson og Ingifinna Jónsdóttir, bændur á Hvanná II, Jökuldal, Benedikt Arnórsson og Guðrún Agnarsdóttir, bændur á Hofteigi, Jökuldal og „Ungmenni í Öræfum“, en þau hafa undanfarin 20 ár borið hita og þunga af uppgræðslustarfi Landgræðslufélags Öræfinga sem hlutu landgræðsluverðlaunin að þessu sinni.
Það var umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Öræfum á fimmtudag. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum.
Með viðurkenningunni vill Landgræðslan vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi fjölda þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja aðra til dáða. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju á Miðhúsum á Héraði.
Í rökstuðningi fyrir valinu á Jökuldælingunum kemur fram að þeir hafi tekið þátt í samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar, Bændur græða landið, frá árinu 1994 og þróun tilraunaverkefnisins Betra bús, en markmið þess er að bændur geri alhliða landnýtingaráætlanir fyrir jarðir sínar.
Benedikt og Arnór hafa tekið virkan þátt í starfi Landbótasjóðs Norður-Héraðs sem ætlað er að græða land til mótvægis við það sem fór undir Hálslón. Segir að starfið hafi notið þekkingar þeirra, reynslu og staðkunnáttu á uppgræðslusvæðum.
Á Hvanná hefur um 85 hekturum af illa förnu landi verið breytt í gróið nytjaland en á Hofteigi hafa um 100 hektarar verið græddir. Landkostir beggja jarðanna hafa því stóraukist að undanförnu.
„Fjölmörg rofsvæði í hinum gamla Jökuldalshreppi hafa verið grædd upp með aðkomu Arnórs á einn eða annan hátt,“ segir í rökstuðninginum. „Áhugi hjónanna á Hofteigi á landbótum og velferð lands er mikill og börn þeirra hafa frá blautu barnsbeini tekið virkan þátt í uppgræðslustarfinu.“
Í Öræfum hafa ungmenni borið hita og þunga af starfi Landgræðslufélags Öræfinga. Krakkarnir geta byrjað árið sem þau verða tíu ára og fá öll ungmenni sem eru á svæðinu, þó að þau séu ekki búsett þar, að taka þátt í landgræðslustarfinu til jafns við þá sem eiga heima í Öræfum.
„Hóparnir hafa sýnt einstakan dugnað og metnað, oft við erfiðar aðstæður og í misjöfnum veðrum. Á stundum hafa þau orðið að ganga í um klukkutíma með bakkaplöntur, áburð og verkfæri á vinnusvæðið, þar sem sumt af þessu landi er mjög erfitt yfirferðar og ekki fært vélknúnum ökutækjum.“