Jólamessa í Heydölum: Organistinn var veðurtepptur
Enginn organisti var við náttsöng í Heydalakirkju á aðfangadagskvöld því hann var veðurtepptur á Eskifirði. Presturinn segist hafa búið sig undir tóma kirkju í veðurofsanum en sveitungar hans börðust í gegnum bylinn og fjölmenntu í kirkjuna.
Frá þessu segir séra Gunnlaugur Stefánsson í pistli á Trú.is en hann messaði bæði þar og á Stöðvarfirði fyrr um kvöldið.
„Þegar vindurinn barði gluggana á prestsetrinu, þá leit tæpast út fyrir að yrði messað um kvöldið, og enn frekar þegar organistinn, sem býr á Eskifirði, hafði samband og sagði mér að hann kæmist ekki vegna veðurs og ófærðar. Ég hugsaði þá með mér, að ég færi út í kirkju og fyrir altarið og flytti bæn og þakkargjörð, þó ekki aðrir mættu,“ skrifar Gunnlaugur.
Skömmu fyrir messutíma, ellefu um kvöldið, birtust meðhjálparinn og sóknarnefndarformaðurinn. Síðan streymdi Breiðdælingar í kirkjuna.
„Það dróst að messan hæfist vegna þess að alltaf sáust ljós sem siluðust áfram eftir veginum í átt til kirkjunnar og meðhjálparinn og sóknarnefndarformaðurinn skiptust á að fara út að taka á móti fólkinu og leiðbeina þeim bestu leiðina í rokinu yfir glæruna inn í kirkjuna. Að lyktum hófst náttsöngur í Heydalkirkju á jólanótt án kórs og undirleiks, en allir sálmar voru sungnir, messusvörin lesin með guðspjalli, bæn og predikun.“