Jólamessa í Heydölum: Organistinn var veðurtepptur

gunnlaugur_stefansson2.jpgEnginn organisti var við náttsöng í Heydalakirkju á aðfangadagskvöld því hann var veðurtepptur á Eskifirði. Presturinn segist hafa búið sig undir tóma kirkju í veðurofsanum en sveitungar hans börðust í gegnum bylinn og fjölmenntu í kirkjuna.

 

Frá þessu segir séra Gunnlaugur Stefánsson í pistli á Trú.is en hann messaði bæði þar og á Stöðvarfirði fyrr um kvöldið.

„Þegar vindurinn barði gluggana á prestsetrinu, þá leit tæpast út fyrir að yrði messað um kvöldið, og enn frekar þegar organistinn, sem býr á Eskifirði, hafði samband og sagði mér að hann kæmist ekki vegna veðurs og ófærðar. Ég hugsaði þá með mér, að ég færi út í kirkju og fyrir altarið og flytti bæn og þakkargjörð, þó ekki aðrir mættu,“ skrifar Gunnlaugur.

Skömmu fyrir messutíma, ellefu um kvöldið, birtust meðhjálparinn og sóknarnefndarformaðurinn. Síðan streymdi Breiðdælingar í kirkjuna.

„Það dróst að messan hæfist vegna þess að alltaf sáust ljós sem siluðust áfram eftir veginum í átt til kirkjunnar og meðhjálparinn og sóknarnefndarformaðurinn skiptust á að fara út að taka á móti fólkinu og leiðbeina þeim bestu leiðina í rokinu yfir glæruna inn í kirkjuna. Að lyktum hófst náttsöngur í Heydalkirkju á jólanótt án kórs og undirleiks, en allir sálmar voru sungnir, messusvörin lesin með guðspjalli, bæn og predikun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar